Sérstaða og hreinleiki íslensks hráefnis leggur grunn að ímynd Íslands sem matvælalands. Íslendingar búa við skilyrði til að framleiða gæða-matvæli í sátt við sjálfbæra þróun þó alltaf megi bæta um betur.  Höfum í huga að mikilvægi norðurslóða sem matvælauppsprettu mun aukast á komandi árum og áratugum.

Við búum að hreinu vatni, lítilli loftmengun og höfum aðgang að endurnýjanlegri orku þar sem Íslendingar eru brautryðjendur á heimsvísu. Það er minna um plöntu- og dýrasjúkdóma en víðast hvar annars staðar og notkun sýklalyfja í búvöruframleiðslu er lítil.  Vaxtahvetjandi hormón í búfénaði er bannað á Íslandi eins og annars staðar í Evrópu og notkun áburðar og eiturefna er með minnsta móti. Þá er rétt að nefna að við Ísland eru eingöngu stundaðar sjálfbærar veiðar og er mikil vinna lögð í það að fiskistofnar og umhverfi hafsins geti áfram verið uppspretta hagsældar í landinu.