Scroll To

Bjóða upp á sveppaís og gulrótarkokteil

Hjónin Emma R. Marinósdóttir og Georg Ottósson opnuðu Farmers Bistro á Flúðum síðastliðið sumar þar sem þau leggja áherslu á nýtingu úr nærumhverfinu og fellur staðurinn því undir hugmyndafræði Slow Food-hreyfingarinnar. Einnig eiga þau og reka Flúðasveppi ásamt garðyrkjustöðinni Flúða-Jörfa.

„Við viljum efla vitund fólks um mikilvægi matarmenningar, þekkingar, hefða og landfræðilegan uppruna matvæla. Við stofnuðum Farmers Bistro til að kynna ræktun Flúðasveppa og Flúða-Jörfa á matseðli og vera með kynningar á ræktun í sýningarrými,“ útskýrir Emma en hún og maður hennar reka eina sveppabú landsins, Flúðasveppi.

Matvæli úr nærumhverfinu
Á Flúða-Jörfa garðyrkjustöðinni rækta þau hjónin paprikur og tómata í gróðurhúsum.
„Einnig er mikil útirækt hjá okkur í Hvítárholti en þar ræktum við gulrætur, regnbogagulrætur, spergilkál, hvítkál, rauðkál, blómkál og grænkál. Okkur var búið að langa til að opna veitingastað sem býður upp á matvæli úr nærumhverfi í mörg ár, en tókum endanlega ákvörðun sumarið 2016 um að opna stað í húsnæði Flúðasveppa. Þá fórum við á fullt í að hanna og skipuleggja verkefnið,“ segir Emma og bætir við:
„Við erum með margar skemmtilegar hugmyndir í farvatninu en til að byrja með ætlum við að einbeita okkur að því að hlúa að nýja fyrirtækinu okkar og að þróa matseðilinn. Flaggskipið okkar á matseðlinum er girnilegt hlaðborð með Flúðasveppasúpu úr hvítu matarsveppunum, kastaníusveppum og portobello-sveppum ásamt ýmsu góðgæti úr sveppum, papriku og sveppasmjöri ásamt nokkrum tegundum af heimabökuðu brauði. Við bjóðum meðal annars upp á sveppaís, gulrótarís og paprikusnafsa ásamt því að bjóða upp á Georg sem er vinsæli gulrótarkokteillinn okkar.“