Scroll To

Breyta brauði í verðlaunabjór

Samtökin Vakandi sem Rakel Garðarsdóttir er í forsvari fyrir, Myllan og Ægisgarður brugghús munu „frumsýna“ nýjan bjór ToastAle í Ægisgarði, 29. nóvember næstkomandi. Bjórinn er bruggaður úr afgangsbrauði frá Myllunni og vilja samstarfsaðilarnir með þessu móti taka þátt í minnkandi matarsóun og að nýta það hráefni sem nú þegar er til staðar í stað þess að ganga stöðugt á auðlindir jarðar.

„Þróunarvinnan við að gera góðan bjór hefur tekið okkur um það bil ár en við vinnum þetta frá ToastAle í Bretlandi sem Tristram Stuart, vinur minn og matarsóunaraðgerðarsinni stofnaði. Þetta er verðlaunabjór frá Bretlandi og við fáum að nota uppskriftina þeirra en aðlögum hann að íslenskum aðstæðum. Við notum í það íslenska heimilisbrauðið sem er aðeins öðruvísi en brauðið í Bretlandi. Þetta er einmitt það sem öll framleiðsla þarf að fara að huga betur að, það er að nýta betur það hráefni sem nú þegar er búið að framleiða. Við sóum of miklu og göngum alltof hratt og vitlaust á þær auðlindir sem við höfum,“ segir Rakel Garðarsdóttir, forsvarsmaður Vakandi.

Bjórinn verður frumsýndur sem fyrr segir í Ægisgarði, 29. nóvember frá klukkan 20-22.