Scroll To

Eldsneytisnotkun í sjávarútvegi minnkað um 43 prósent

Í gær kom út ný skýrsla frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi sem nefnist Nýting auðlindar og umhverfisspor þar sem hægt er að fræðast um helstu staðreyndir orkunotkunar í íslenskum sjávarútvegi og spá um framhaldið í þeim efnum. Það er óhætt að segja að íslenskur sjávarútvegur leggi sitt lóð á vogarskálarnar fyrir bættari umhverfisvitund.

Parísarsamkomulagið var undirritað í París 12. desember árið 2015. Markmið samkomulagsins er að stöðva aukningu í útblæstri gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu og ná að halda hnattrænni hlýnun innan við 2°C. Ísland mun leitast við að ná sameiginlegu markmiði með ríkjum ESB og Noregi um 40% minnkun losunar til ársins 2030 miðað við árið 1990.

Áætlað er að sjávarútvegur dragi úr eldsneytisnotkun um 134 þúsund tonn á tímabilinu 1990 til 2030. Þá verði fiskibræðsla nær eingöngu knúin með rafmagni og raforkuframleiðsla um borð í fiskiskipum með ljósavél sem liggja í höfn heyri til undantekninga. Gangi þetta eftir mun eldsneytisnotkun í sjávarútvegi hafa dregist saman um 54% á tímabilinu. Sterkir fiskistofnar, framfarir í veiðum og betra skipulag veiða hafa leitt til verulega minni olíunotkunar í sjávarútvegi og þar með losun gróðurhúsalofttegunda. Eldsneytisnotkun í sjávarútvegi hefur í heild minnkað um tæplega 43% frá árinu 1990 til ársins 2016.

Fram til ársins 2030 er reiknað með að olíunotkun í sjávarútvegi dragist saman um 19%. Ársnotkun eldsneytis í sjávarútvegi árið 2016 var sú lægsta frá árinu 1990, bæði frá fiskiskipum og fiskmjölsverksmiðjum. Sjávarútvegur á Íslandi hefur náð markmiði Parísarsamkomulagsins vegna fiskmjöls og lýsisframleiðslu og er kominn vel á veg með að ná þessu markmiði vegna veiða. Fjárfestingarþörf í fiskiskipum fram til ársins 2030 er metin á um 180 milljarða króna. Nýrri og tæknivæddari skip munu draga enn frekar úr áhrifum sjávarútvegs. Frá árinu 2006-2016 hafa Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sent á eigin vegum eða haft milligöngu um endurvinnslu á 8.400 tonnum af veiðarfæraúrgangi.