Verandi, vörur unnar úr hráefnum sem annars væri hent

„Verandi framleiðir hágæða húð- og hárvörur úr endurnýttum hráefnum, með engum neikvæðum áhrifum á umhverfið. Við trúum því að efni sem eru skaðleg fyrir umhverfið séu einnig skaðleg fyrir líkamann.“
Viðskiptaáætlun þessi lýtur að þróun, framleiðslu og sölu húð- og hárvörum undir vörumerkinu VERANDI. Um er að ræða nýsköpunarverkefni, en okkur vitandi hafa aldrei áður verið framleiddar húð- og hárvörur með sömu áherslum og hjá VERANDI.
Mikill uppgangur hefur verið síðustu ár hjá íslenskum snyrtivöruframleiðendum og er það ekki síst vinsældum landsins okkar að þakka. Ísland er og hefur verið síðustu ár einn vinsælasti áfangastaður erlendra ferðamanna og hefur því markaðurinn, sem áður taldi aðeins nokkur hundruð þúsund manneskjur, stækkað mikið en næstum 2 milljónir erlendra ferðamanna heimsóttu Ísland á síðasta ári. Flestir íslenskir húðvöruframleiðendur eiga það sameiginlegt að nýta frægðir Íslands á einhvern hátt, annað hvort með að tengja vörumerkið við íslenska náttúru eða við tiltekin íslensk kennileiti. Má þar á meðal nefna Blue Lagoon vörurnar, Sóley, Villimey, Purity Herbs, Angan osfrv.

Okkar vörur hafa það sameiginlegt með ofangreindum vörum að þær að mestu unnar úr íslenskum hráefnum. Við göngum þó mun lengra og notum aðeins 100% náttúruleg hráefni og engin hráefni sem eru skaðleg umhverfinu.
Það sem hins vegar greinir okkur frá öðrum framleiðendum er sú staðreynd að megin uppistaðan í okkar vörum innihalda hráefni sem eru endurnýtt. Hráefni sem að öðrum kosti væri hent. Þar liggur okkar sérstaða; í endurnýtingu á dýrmætum hráefnum og koma þannig í veg fyrir sóun og betri nýtingu á auðlindum.