Scroll To

Íslenskar kryddjurtir í metsölusúkkulaði

Elsa Guðbjörg Borgarsdóttir framleiðir handgert súkkulaði heima hjá sér í bílskúrnum í Súðavík undir merkjunum Sætt&Salt. Allt frá árinu 1984 þegar hún byrjaði að vinna í bakaríi á Húsavík hefur hún verið heilluð af eiginleikum og fjölbreytni súkkulaðis. Hún notar eingöngu gæðahráefni og framleiðir nú súkkulaðiplötur með fimm bragðtegundum og þrjár gerðir af konfekti og hefur ekki undan að framleiða.

Líf mitt tók aðra stefnu í allmörg ár eftir að ég starfaði í bakaríinu fyrir norðan en síðan tók ég upp þráðinn fyrir nokkrum árum þegar ég var rekstraaðili að Kaupfélaginu í Súðavík og langaði að gefa smá smakk með kaffinu. Ég nota gæðahráefni sem kemur frá Belgíu en er með mína eigin blöndu. Hráefnið sem ég nota kemur í gegnum heildsala en það er spurning hvað það mun verða mikið lengur ef framleiðnin eykst enn frekar. Salan hefur gengið vel og hefur súkkulaðið alfarið kynnt og markaðssett sig sjálft. Það eru einungis þrír mánuðir síðan ég flutti úr 18 fermetra húsnæði í 80 fermetra en það var orðið mjög aðkallandi. Ég stefni á að stækka enn frekar en það mun gerast af skynsemi og varfærni eftir því sem markaðurinn verður stærri,“ útskýrir Elsa og segir jafnframt:

„Í dag eru tegundir í súkkulaðiplötunum fimm talsins, það eru þurrkuð bláber og smjörkrókant, gojiber og graskersfræ, graskersfræ og ristað sesam, rjómasúkkulaði og hvítt súkkulaði með kaneleplum og trönuberjum. Ég er einnig með þrjár tegundir af konfekti. Síðan eru árstíðabundnar tegundir fyrir jól, páska og yfir berjatímabilið. Jólin með bragði af hátíðarhöldum, páskar með sætleika og kröftugu bragði af rokkhátíðinni Aldrei fór ég suður og hvítt súkkulaði með ferskum aðalbláberjum á meðan berjatíminn stendur yfir og stundum nota ég blóðberg úr hlíðinni fyrir ofan mig. Það veitir mér mikla ánægju að skapa góða vöru sem er ekki bara falleg fyrir augað heldur einnig bragðgóð. Súkkulaðið er lífið fyrir mér og þyrfti ég töluvert fleiri tíma í sólarhringnum til að geta sinnt einhverju öðru fyrir utan það og fjölskylduna eins og staðan er í dag.“