Scroll To

Mikilvæg kynning á íslenskum sjávarafurðum

Fiskidagurinn mikli á Dalvík sem haldinn er helgina eftir verslunarmannahelgi byrjaði árið 2001 og það ár komu 4000 gestir á hátíðina. Nú, 18 árum síðar, var algjört metár þegar tæplega 40.000 gestir sóttu hátíðina heim. Júlíus Júlíusson, framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla, segir hátíðina skipta miklu máli fyrir neyslu á íslenskum fiskafurðum.

Á hátíðinni í ár voru framreiddir um 135 þúsund matarskammtar og nokkur tonn runnu ljúflega ofan í gesti og gangandi þar sem allur matur er í boði forsvarsmanna hátíðarinnar.
„Við erum sannfærð um miðað við hvað margir eru að smakka ýmislegt í fyrsta sinn og líkar það vel og eins af umræðunni þá skiptir Fiskidagurinn mikli máli fyrir neyslu á íslenski fiskiafurðum. Á fiskisúpukvöldinu á föstudagskvöldinu bjóða íbúar og gestir þeirra upp á súpu í heimahúsum, görðum og götum og allir með sína uppskrift þar sem afar skemmtileg stemning myndast. Á laugardeginum sem er Fiskidagurinn mikli sjálfur eru í boði á þriðja tug rétt og allt saman úr glæsilegu og fersku hráefni. Meðal þess sem er á matseðlinum er Fish and Chips, sushi, sasimilax, hrefna og bleikja, grafin bleikja, grillaður þorskur og bleikja, harðfiskur og smjör, rækjur í skelinni, rækjusalat, Filsur (sérhannaðar fiskipylsur), fiskborgarar, síld og rúgbrauð, reyktur lax á volgu flatbrauði, austurlensk súpa og að ógleymdri stærstu saltfiskspítsu landsins sem er 120” og það eru 640 sneiðar í hverri pítsu. Hún er bökuð í umhverfisvænum ofni hjá Sæplasti og er keyrð inn í ofninn með gaffallyftara. Þetta eru dæmi um það sem gerist hérna þessa helgi ár hvert og við sem stöndum að henni erum mjög hrærð yfir því að sjá þátttökuna aukast ár frá ári og að þetta gengur öllu jöfnu stórslysalaust fyrir sig,“ útskýrir Júlíus Júlíusson.