Scroll To

„Stolt af því sem við höfum upp á að bjóða“

Ólöf Þ. Hallgrímsdóttir eigandi og framkvæmdastjóri Vogafjóss í Mývatnssveit var í óðaönn að undirbúa aðventutónleika staðarins þegar Matarauður hafði samband við hana. Nýlega fékk Ólöf viðurkenningu fyrir störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi sem hún og maður hennar hafa stundað í 18 ár í Vogafjósi. Þar er nú rekinn einn af bestu veitingastöðum á Norðurlandi þar sem áhersla er á að selja mat úr héraði.

„Verðlaunin hvetja okkur til að halda áfram í því sem við höfum verið að gera, það er að bjóða upp á þjóðlegan íslenskan mat og vera stolt af því sem við höfum upp á að bjóða. Aðaláherslur hjá okkur í matarvali í Vogafjósi er að nýta okkar afurðir á búinu og reyna að auka virði þeirra sem mest og best. Við viljum líka styðja við okkar nærumhverfi og erum í góðum samskiptum og viðskiptum við aðra bændur sem til dæmis reykja fyrir okkur silung. Gestirnir eru yfirleitt mjög ánægðir með að fá að njóta matar og menningar sem fylgir því svo ekki sé talað um að fá að horfa á mjaltir og smakka spenvolgan mjólkursnafs,“ útskýrir Ólöf.

Vogafjós nýtur frægðar í Asíu
Ólöf segir það skipta þau hjónin miklu máli að bjóða upp á sem mest heimagert og þjóðlegt um leið og þau standi þá undir nafni að vera staður sem selur „beint frá býli“.
„Það er okkar metnaður að bjóða einungis upp á heimabakaðar kökur og besta hráefni notað í þær og að sjálfsögðu aðeins ekta rjómi. Ég held að það megi segja að lambakjötið sé það sem er vinsælast hjá okkur enda bjóðum við það í nokkrum útfærslum á matseðli. Í október skildum við til dæmis ekkert í því að allir okkar gestir frá Asíu óskuðu eftir að fá hægeldaða lambaskanka að borða. Við áttuðum okkur ekki fyrr en einn gesturinn tjáði okkur að við værum fræg í Asíu og lambaskankarnir okkar hefðu verið í sjónvarpinu og þau yrðu að smakka þá. Það rifjaðist upp fyrir mér að sjónvarpið í Suður Kóreu var hér á ferð að taka upp þátt um Ísland sem við tókum þátt í,“ segir Ólöf og bætir við:
„Við erum líka með disk sem við köllum „Vogafjós special“ þar sem boðið er upp á að smakka okkar afurðir frá búinu eins og til dæmis mozzarella-ostinn, salatostinn, hverabrauð, hrátt hangikjöt, reyktan silung, grafinn silung og meðlæti. Þessi diskur er afskaplega vinsæll. Það hefur alltaf verið skoðun mín að ekki sé vandamál að selja lambakjötið okkar ef rétt er staðið að markaðssetningu. En til þess þarf það að sjálfsögðu að vera í boði á matseðlinum og við þurfum að vera stolt af því sem við höfum upp á að bjóða.“