Egg

Scroll To landnámshæna mynd fengin af haena.is

Hænsnfuglar

landnámshæna mynd fengin af haena.is
711

Svo flýgur hver fugl sem hann er fjaðraður

Á Íslandi eru hænur og kalkúnar ræktaðir til manneldis. Rjúpan er villt en telst líka hænsnfugl og er árlegur jólamatur á borðum margra Íslendinga. Enn er til lítill stofn hænsna sem talinn er hafa haldist við allt frá landnámi og kallast landnámshænur. Frekar lítið mun hafa verið um hænsnarækt hinar síðari aldir en hún tók að aukast með tilkomu þéttbýlis. Vitað er að menn héldu hænur í þorpum og bæjum eftir því sem aðstæður leyfðu. Eins er ljóst að auðvelt var að flytja inn hænsni, lifandi með skipum, eða sem frjóvguð egg þegar samgöngur urðu tíðari og skjótari. Egg til neyslu voru flutt inn á síðustu öld allt til ársins 1930. Eftir það tók eggjaframleiðsla að aukast og hænsnum fjölgaði nær jafnt og þétt alla öldina.

Dag einn þegar litla gula hænan var að róta í garðinum fann hún nokkur hveitifræ. „Hver ætlar að gróðursetja þessi hveitifræ?“ sagði litla gula hænan. „Ekki ég“ sagði kisan, „Ekki ég“ sagði músin, „Ekki ég“ sagði haninn, „Ekki ég“ sagði öndin, „Ekki ég“ sagði hundurinn með langa skottið.

„Þá geri ég það“ sagði litla gula hænan. Og hún gerði það.

Litla gula hænan eftir Frank Baum

Er móðuharðindin lögðust yfir landið í lok 18. aldar varð mikill fellir í búfjárstofnum. Fór
Landnámshænan mjög illa út úr þeim náttúruhamförum. Sagt var að í sumum sveitum hafi aðeins örfáir fuglar lifað af. Síðar er farið var að flytja inn erlenda stofna til eggjaframleiðslu þá fækkaði allmikið í stofninum og það var fyrir tilstilli dr. Stefáns Aðalsteinssonar að það tókst að bjarga stofninum úr útrýmingarhætttu á 8. áratug síðustu aldar. Í dag nýtur landnámshænan vinsælda hjá áhugaræktendum og til er félag stofnað til verndar henni. Stofninn er talinn vera 3-4.000 fuglar.

Meðal einkenna íslensku Landnámshænunnar eru mannelska og forvitni. Hver fugl hefur sinn persónuleika. Þær þykja sjálfbjarga og hafa sterka móðurhvöt. Frjósemi er góð hjá báðum kynjum. Hver og ein hefur sitt sérstaka útlit og mikil litafjölbreytni ríkir.

Kjötframleiðsla af hænsnum hófst hér á sjöunda tug síðustu aldar eða um 1961 þegar fyrst voru flutt inn holdakyn að Reykjum í Mosfellssveit. Á þeim tíma var kjúklingakjöt mikill hátíðismatur hérlendis. Síðan tóku fleiri bændur upp slíka framleiðslu og sláturhús voru byggð. Neysla á kjúklingakjöti hefur síðan aukist jafnt og þétt og veitt annarri kjötframleiðslu stöðugt harðari samkeppni.

Ekki er langt síðan að kalkúnarækt hófst hér á landi og er kalkúnn víða hátíðismatur meðal Íslendinga. Fyrstu heimildir um kalkúnakjöt hér á landi tengjast bandaríska setuliðinu í heimsstyrjöldinni síðari sem flutti inn mikið af því í tengslum við þakkargerðar­hátíðina. Kaþólski presturinn á Jófríðarstöðum í Hafnarfirði var með nokkra kalkúna í eldi á fimmta áratug síðustu aldar.

Alifuglaræktar er getið í fornsögum, kunnug er gæsagæsla Grettis sterka
Ásmundarsonar og hvernig hann fór með gögl föður sína og saga er til af Hænsa-Þóri sem var óvinsæll viðskiptamaður og farandsali landbúnaðarafurða. Þá má ekki gleyma mergð sjófugla eru í björgum við landið.

Matur: bringa, leggir, file, vængir, lifur, egg (ekki hjá kalkúnum)

Eldun: soðið, steikt og grillað

 

Sjófuglar

Lundi. Ljósmynd Gísli Egill Hrafnsson
755

Að ferðast sem fuglinn fljúgjandi

Mergð sjófugla eru í björgum við landið. Björgin hafa verið nytjuð frá landnámstíð og sjófuglar hafa verið þeir fuglar sem mestar nytjar hafa verið af. Fuglarnir koma í bjargið snemma vors til að verpa. Þá er sigið í björgin og eggin tínd. Svo hverfur fuglinn úr björgunum, yfirleitt um miðjan ágúst.

Það er ógleymanleg reynsla fyrir skilningarvitin að skoða fuglabjörg. Fjöldi fuglanna er geysilegur og allt að því óraunverulegur og sífelldur ys og þys. Fuglarnir steypa sér án afláts úr berginu til hafs þar sem þeir kafa eftir fæðu úr sjónum. Svo snúa þeir til baka með gogginn fullan af sílum sem þeir fæða ungana á. Þetta endurtekur sig allan daginn og hávaðinn og skvaldrið er eins og á stærstu rokktónleikum. Tegundirnar helga sér mismunandi stað í bjarginu allt eftir því sem hentar. Hver og einn hefur sína syllu.

svartfuglsegg

Sturlunga segir frá lífi Íslendinga á Íslandi og voru frásagnir hennar ritaðar á 13. öld líkt og Íslendingasögur. Þar segir frá draumkonu Jóreiðar í Miðjumdal sem hún hafði um annan ofsamann, þ.e. Eyjólf ofsa. Draumkonan sagði við Jóreiði í Miðjumdal: „Illir þykja mér allir þeir fuglar er í sjálfs hreiður skíta“

 

Til svartfugla teljast álka, langvía, stuttnefja, lundi, haftyrfill og teista. Ekki er leyfilegt í dag að veiða allar tegundir svartfugla og þær tegundir sem má veiða er skylt að lúta reglum um veiðitímabil. Kjötið af svartfuglum er dökkt og bragðmikið og er hin besta villibráð. Oft má finna svartfugl á matseðlum íslenskra veitingahúsa. Áður fyrr var svartfuglinn kærkomið nýmeti snemmsumars eftir langan vetur. Kjötið var saltað, reykt, súrsað eða borðaður nýr. Svartfuglsegg þykja mörgum lostæti.

Um miðjan apríl fara fyrstu lundarnir að sjást við landið en í byrjun maí eru þeir nánast allir komnir ,,heim“.  Lundinn er langlífur fugl sem getur orðið áratuga gamall. Við náttúrlegar aðstæður er talið að meðalaldur lundans sé á bilinu 20 til 25 ár. Elsti lundinn sem vitað er um var 38 ára, hann var merktur í Vestmannaeyjum.

Veiðar á lundaungum eru kallaðar kofnatekja. Kofnatekja var yfirleitt í fyrstu viku í ágúst. Í héruðum um Breiðafjörð var fyrstu kofnasúpunnar beðið með eftirvæntingu.  Hún var soðin  með skarfakáli og fyrstu kartöfluuppskerunni og hennar neytt standandi úti á hlaði, skemmtilegur siður sem endurvekja mætti í héruðum Breiðafjarðar.

Um fýlinn er hægt að lesa hér.

 

 

Fýllinn

Fýll
1027

Skyldi fýllinn vera fýldur?

Það er fýllinn sem einkennir mataræði Mýrdalsins. Fyrst er getið um fýl þar í kringum 1820 en veiði hefst líklegast um 10 árum seinna. Árið 1900 er talið að um 28 þúsund fýlsungar hafi verið veiddir eingöngu í Mýrdalnum. Fýllinn var einnig notaður sem gjaldmiðill á þeim tíma. Til eru nákvæmar lýsingar á þeim hefðum og siðum sem í heiðri voru haldnar í fýlaveiðiferðum og er þar fjársjóð að finna fyrir ferðamennsku á þessum svæðum og í Vestmannaeyjum. Í dag er hægt að bregða sér undir Eyjafjöll á veitingastaðinn Gamla fjósið í september ár hvert og gæða sér á fýl í fýlaveislunni þeirra. Aðsóknin eykst ár frá ári.

Soðinn, reyktur og saltaður
Veiðarnar  hófust í 18. viku sumars, áður en fýlsunginn byrjaði að læra flugið og stóðu í eina viku. Að morgni, eftir fyrsta veiðidag, voru borin fram stór trog með nýsoðnum fýl og að lokinni veiði var haldin veisla. Á borðum var reyktur fýlsungi, rúsínugrautur með sírópi og jafnvel kindasteik.

Væri fýll hamflettur þurfti að taka innan úr honum fyrst. Að öllu þessu varð að ganga rösklega svo fýllinn skemmdist ekki og koma honum sem fyrst í salt. Úr söltum fýl var soðin súpa með gulrófum og bankabyggi og var körlum skammtaður hálfur fýll með súpunni.

Af fýlnum var allt nýtt. Egg voru tínd og etin ný, ýmist sopin eða höfð í klatta og lummur. Haus, vængir og lappir voru höggnir af en það var kallað að kvista fýlinn. Hausinn var etinn og þótti lostæti en erfitt var að hirða hann og hreinsa.

 

Smolt, fýlafeiti og fýlabræðingur
Fýlafylla hét paran af fýlsunganum, er hún þykk og drýpur af henni feitin. Fýlsbringa með fyllunni var mesta hnossgæti en fýllinn varð bragðmeiri þegar hann var soðinn með fyllunni. Við það settist ofan á vatnið fita, svokallað smolt, sem var fleytt ofan af og notað sem viðbit. Vetrarfýll var ekki nærri eins feitur enda var hann borðaður nýr. Hann þurfti langa suðu og var því moðsoðinn, það er, komið var upp á honum suðunni og pottinum síðan komið fyrir í kassa einangruðum með heyi.

Fýllinn var svo feitur að binda varð spotta um hálsinn á honum þegar fiðrið var reytt af til þess að ekki rynni fram úr honum lýsið. Fýlafeiti og fýlabræðingur var gott viðbit. Vængir, lappir og fiður sem hafði lýsismengast var þurrkað ásamt beinunum og notað sem eldsneyti, innyflin til áburðar. Til að fjarlægja lýsisbragð var fýllinn látinn liggja í mjólk yfir nótt. Á síðari tímum hafa menn numið á brott ákveðna kirtla og sett edik út í vatnið og hefur lýsisbragðið með öllu horfið.

Fýlafiðursængur
Fýlsunginn var mest reyttur en líka hamflettur. Fiðrið var hirt en ýmsum vandkvæðum var við það bundið, sögð var vera kotalykt af fólki sem svaf við fýlafiðursængur. Ýmsar leiðir voru farnar til að ná lýsislyktinni úr fiðrinu. Fiðrið var til dæmis látið rigna úti og síðan þurrkað, það var hitað í potti og þurrkað í blæstri, geymt árum saman í hellum og í Mýrdalnum var þróuð líftækniaðferð, fiðrið var látið maðka og maðkarnir síðan hristir úr því.