Nú er svo komið að ýmsar þjóðir eru farnar að gera sér grein fyrir hollustu og nýtingarmöguleikum á þörungum. Íslendingar eru ekki eftirbátar annarra í þeim efnum. Mörg spennandi verkefni eru í gangi þar sem þörungar geta nýst í framleiðslu á fæðubótarefnum, snyrtivörum og í matvælaiðnaði.
Þegar sjávarflóran er skoðuð vekur athygli hversu mikill fjölbreytileikinn er. Um 30 tegundir þörunga sem vaxa við Íslandsstrendur eru skilgreindir sem ætiþörungar.
Aðgengilegustu nytjafjörurnar eru á Suður- og Vesturlandi. Skýringin er sú, að þar munar mestu á flóði og fjöru, allt að 4 metrum á stórstreymisfjöru. Þar vaxa einnig fjörugrös, sem finnast ekki á Norður- og Austurlandi, og purpurahimna vex þar í meira magni en annars staðar. Best er að safna þörungum síðsumars á stórstreymisfjöru, þá er næringargildið í hámarki. Söl vaxa á klöppum og steinum neðst í fjörunni þar sem brimið er mest. Við tínslu þarf að klípa eða klippa þörunginn í sundur rétt fyrir ofan festinguna við klettinn eða steininn, svo hann geti haldið áfram að vaxa. Blöðru- og klóþang má finna á steinum sem standa upp úr á fjöru.
Maríusvuntur og purpurahimnur má stundum finna útflattar í sandinum, fastar á litlum steinum. Aðra þörunga sem vaxa dýpra í hafinu, t.d. beltisþara, má stundum finna í fjörunni eftir vindasama daga. Þá hefur undiraldan verið það mikil að hún hefur slitið upp gróðurinn. Ekki taka þörunga sem hafa legið einhverja daga í fjörunni. Þá má hins vegar nýta með því að sjóða þá niður í kröftugan áburð til að vökva matjurtirnar.
Beltisþara (selt sem Sweet Kelp eða Royal Kombu) og hrossa-þara (selt sem Kelp eða Atlantic Kombu) er gott að nýta til að bragðstyrkja ýmiss konar soð og súpur. Þeir ásamt öðrum þörungum ljá matargerðinni hið eftirsótta „umami“-bragð eða það sem hefur verið skilgreint sem fimmta bragðið. Beltisþara má djúpsteikja. Þá er honum er velt rökum upp úr hveiti og kryddi áður en hann er steiktur.
Söl og fjörugrös skiptu áður fyrr miklu máli í fæðu Skaftfellinga. Sölin voru soðin í mjólk ásamt rófum og ýmist snædd í morgunmat eða til nónverðar. Þá voru söl söxuð í grauta og brauð, til helminga á móti mjöli. Fjörugrösin voru lögð í bleyti í ósalt vatn og síðan söxuð og soðin í límkenndan graut, ýmist úr vatni eða sýru eða úr mjólk og mjöli, þeir sem betur máttu sín, og etin með rjóma út á. Eða líka að grauturinn var látinn kólna í trogi, þar sem hann hljóp í hellu. Hún var skorin í bita sem síðan voru látnir í súr eða etnir með súrmjólk. Þá tíðkaðist líka að hella soðnu fjörugrasamauki ofan í skyrtunnu þar sem það hljóp í skjöld ofan á skyrinu, hlífði því og var síðan etin með því. Í dag nýtir matvælaiðnaðurinn sér hleypiefnið úr fjörugrösum.
Söl er hægt að nota í allt sem ykkur dettur í hug, t.d. söxuð út í salöt, til að sáldra yfir ýmsa kjöt- og fiskrétti, og út í baksturinn. Rökum sölvum er hægt að velta upp úr nokkrum dropum af ólívuolíu, kryddi og sojasósu og þurrka í ofni við 160˚C þar til þau eru orðin brakandi stökk. Ferska maríusvuntu og purpurahimnu er hægt að saxa gróft niður í eggjakökur eða nota ferskar eða þurrristaðar sem meðlæti með kjöti og fiski. Þeir sem hafa áhuga á að nota fjörugrös þá þarf að sjóða þau í 20–30 mínútur og sigta frá. Hér áður og fyrr þóttu fjörugrös góð við kveisu en þau eru sérlega rík af A-vítamíni, joði og próteinum. Þurrkuð og fínsöxuð fjörugrös eru notuð við bjórgerð. Þá eru þau sett út í bjórinn í lok suðu-tímans. Fyrir vikið verður hann tærari. Hér er myndband um matreiðslu með þara.
Á Íslandi er starfrækt þörungaverksmiðja í Reykhólasveit. Verksmiðjan nýtir þörungagróður á grunnsævi Breiðafjarðar og jarðhitann til að þurrka þang- og þaramjöl og er framleiðslan lífrænt vottuð. Þangið er skorið með fljótandi slátturvélum og flutt í netum til verksmiðjunnar.
Ítarlegar upplýsingar um fjörunytjar á Suðurnesjum