Matarauður Íslands
   
Vefsjá matþörunga

FLOKKAR

  • UM VERKEFNIÐ
  • Leiðbeiningar
  • Matþörungar
Vefsjá matþörunga

Um verkefnið

Það hefur orðið mikil vakning um nýtingu þörunga og margir áhugasamir um að nýta þennan matarauð bæði til einkanota en einnig í ýmsa framleiðslu. Til að auðvelda almenningi aðgengi að heildstæðu og notendavænu þörungakorti var ráðist í þessa vefútgáfu. Eydís Mary Jónsdóttir, land- og umhverfisfræðingur hafði yfirumsjón með kortlagningu ásamt Gunnhildi Georgsdóttur  í samvinnu við Matarauð Íslands. Við kortlagningu var m.a. stuðst við vistgerðakortagögn Náttúrufræðistofnunar Íslands. Meira um þörunga má finna https://mataraudur.is/hraefni/fjorunytjar/

Til að fá frekari upplýsingar um hvern þörung er smellt á heitið í dálknum til hægri og þá kemur upp yfirlitskort af Íslandi með þeim stöðum þar sem hægt er að týna viðkomandi þörung. Síðan er hægt velja það svæði sem þú vilt skoða með því að smella á hringinn. Þá færðu nærmynd af svæðinu og þegar smellt á  litað svæði/strandlengju  kemur upp mynda og textabox ásamt hniti og kvarða um hversu auðvelt er að finna þörunginn.

Vefsjá matþörunga

Leiðbeiningar

Til að fá frekari upplýsingar um hvern þörung er smellt á heitið í dálknum til hægri og þá kemur upp yfirlitskort af Íslandi með þeim stöðum þar sem hægt er að týna viðkomandi þörung. Síðan er hægt velja það svæði sem þú vilt skoða með því að smella á hringinn. Þá færðu nærmynd af svæðinu og þegar smellt á litað svæði/strandlengju kemur upp mynda og textabox ásamt hniti og kvarða um hversu auðvelt er að finna þörunginn.

Vefsjá matþörunga

Matþörungar

Tegundir

Dvergþang Pelvetia canaliculata

Dvergþang er smávaxinn brúnþörungur sem vex allra efst í fjörunni og því auðvelt að nálgast það, nema á stórstraumsflóði. Dvergþang er sérstaklega skemmtilegur matþörungur sem skemmtilegt er að prófa sig áfram með, en það má t.d. nota það á svipaðan hátt of broccolí en einnig er það sérstaklega gott pikklað. Mikilvægt er að skera eða klippa dvergþangið, en ekki rífa það upp með festunni. Þannig vex það upp aftur.

Purpurahimna Porphyra sp

Purpurahimna, einnig þekkt sem nori, er einstaklega bragðgóður rauðþörungur sem lítur út eins og rauðleit himna sem festir sig á klappir og steina. Á Íslandi er að finna 11 tegundir purpurahimna sem vaxa á mismunandi stöðum í fjörunni og því má finna hana bæði efst í fjörunni og niður að fjörumörkum.

Þangskegg Polysiphonia lanosa

Sjávartruffla, eða þangskegg eins og hún heitir réttu nafni, er þráðlaga rauðþörungur sem vex eingöngu sem ásæta á klóþangi. Klóþang er ein algengasti þörungurinn í fjörum landsins og má finna hann um miðbik fjörunnar og því er tiltölulega auðvelt að nálgast hann nema á flóði. Sjávartruffluna er best að slíta eða klippa af klóþanginu í fjörunni. Sjávartruffla er frábært krydd fyrir þá sem eru hrifnir af trufflubragði og er góð bæði fersk og þurrkuð.

Fjörugrös og Sjóarkræða Chondrus crispus

Fjörugrös og sjóarkræða eru smávaxnir rauðþörungar sem einnig eru þekktir undir nafninu irish moss og eru helst notuð sem þykkingarefni. Tegundirnar eru mjög áþekkar og má finna þær um miðbik og neðsta hluta fjörunnar, þar sem þær þekkja oft steina og klappir og því best að nálgast þær á fjöru. Til að tryggja sjálfbæra nýtingu fjörugrasa skal skilja eftir festuna og neðsta hluta plöntunnar eftir, svo þörungurinn geti haldið áfram að vaxa.

Söl Palmaria palmata

Söl eru rauðþörungur með stuttan stilk með eitt eða fleiri stofnblöðum, sem á vaxa mörg aflöng, þunn, leðurkennd hliðarblöð. Það eru hliðarblöðin sem eru ljúffengust og því best að skilja stilkinn eftir svo þörungurinn geti haldið áfram að vaxa.

Söl vaxa frá miðri fjöru og niður fyrir stórstraumsfjörumörk á steinum, klöppum og þarastilkum, og eru yfirleit tínd um stórstraumsfjöru frá miðjum júlí og fram í September, enn þá eru þau bragðbest.

Hrossaþari Laminaria digitata

Hrossaþari er ólívubrúnn brúnþörungur með langan stilk og stóra, fingraða blöðku sem getur orðið allt að 3 metrar að lengd. Í Japan er hrossaþari kallaður kombu og er notaður í margskonar matargerð, sérstaklega í súpur. Hrossaþari vex í neðsta hluta fjörunnar og því er best að nálgast hann á stórstraumsfjöru.

Beltisþari Saccharina latissima

Beltisþari er aflangur, bylgjóttur brúnþörungur sem getur orðið allt að 5 metra langur. Beltisþari er einnig þekktur undir nafninu sykurþari enda er hann sætari á bragðið en aðrir þarar, sérstaklega á haustinn þegar hann hefur safnað í sig fjölsykrum yfir sumarið. Beltisþari vex allra neðst í fjörunni og því er best að nálgast hann á stórstraumsfjöru.

Marinkjarni Alaria esculenta

Marinkjarni er brúnþörungur sem þekkja má af greinilegri þykkri miðtaug og þunnum, bylgjukenndum faldi sem vex útfrá miðtauginni. Marinkjarni getur orðið allt að 4 metra langur. Hann er einnig þekktur undir nafninu atlantic wakame og er m.a. algengt hráefni í miso-súpur. Marinkjarna er helst að finna neðst í brimasömum fjörum og því best að nálgast hann á stórstraumsfjöru.

Tínsla fjöruþörunga

Sjálfbær nýting

Matþörungar sem vaxa í fjörum nota festu til að halda sér föstum á yfirborði klappa eða steina sem þeir vaxa á. Til að tryggja sjálfbæra nýtingu er góð þumalputtaregla að skilja alltaf eftir festuna og ásamt neðsta hluta þörungsins svo að hann geti vaxið upp aftur. Sumar tegundir er auðvelt að rífa af festunni, en flestar þarf að skera eða klippa.

Sjávarföll

Mikilvægt er að vera vel kunnugur sjávarföllum áður en haldið er í fjörumó. Þegar talað eru um sjávarföll er átt við ris og hnig sjávar sem eru til komin vegna þyngdarkrafta tungls og sólar. Flóð er þegar sjórinn rís og hylur fjöruna. Fjara er þegar sjórinn fellur frá og fjaran kemur aftur undir bert loft. Sjávarfallabylgjan stjórnast að mestu af tunglhringnum sem er 24 klukkustundir og 50 mínútur, en ekki 24 klukkustundir eins og sólarhringurinn. Þess vegna eru flóð og fjara eru aldrei á sama tíma tvo daga í röð. Sjávarföll verða tvisvar í hverjum tunglhring sem þýðir að það fjarar út tvisvar á sólarhring og þá er hægt að nálgast matþörunga. Tíminn á milli háflóðs og háfjöru eru rétt rúmir 6 klukkutímar og 12 mínútur. Sjávarfallahæð er heldur ekki sú sama á öllu landinu á sama tíma. Sjávarfallabylgjan ferðast frá vestri til austurs og er flóðbiðin á milli Sandgerðis og Reykjavíkur t.d. um 20 mínútur, en um 6 tímar á milli Reykjavíkur og Vopnafjarðar.

Á vefsíðunni tides.mobilegeographics.com má finna fríar flóðspár fyrir helstu hafnir í heiminum langt fram í tímann og það er auðvelt að skipuleggja fjöruferðir með hjálp hennar.
Að öllu jöfnu er gott að miða við að sjávarstaða þurfi að fara niður fyrir 0,1 metra ef ná á í þara, 0,15 ef ná á í söl og fjörugrös og 0,5 ef ná á í þang sem vex um miðbik fjörunnar. Á þessu, eins og svo mörgu öðru, eru undantekningar, enda er landslag fjara og aðstæður í þeim mjög fjölbreytilegt. Gott er að vera komin í fjöru u.þ.b. 1 klukkustund áður en mesta fjaran er, til að nýta fjörutímann sem best og mikilvægt er að gæta fyllsta öryggis þegar gengið er í hálli fjörunni.

Beltaskipting

Mikilvægt er að þekkja til beltisskiptingu matþörunga í fjörum ef áætlunin er að fara og tína þá. Með beltaskiptingu er átt við hvar í fjörunni hver tegund vex. Fjöruþörungar hafa þróast þannig að hver tegund vex best við ákveðin skilyrði sem finna má á ákveðnum beltum sem ákvarðast að mestu af rakastigi. Dvergaþang, sem staðsett er efst í fjörunni, er til að mynda sá fjöruþörungur sem þolir hvað best þurrk og fer einungis undir sjó á stórstraumsflóði. Þararnir aftur á móti þola illa þurrk og koma afar sjaldan á þurrt og þá bara þar sem góð rakaskilyrði eru fyrir hendi. Þá er því að finna við stórstraumsfjörumörk allra neðst í fjörunni eða í fjörupollum. Söl vaxa helst í skugga eða þar sem rakt er, neðarlega í fjörunni, oft skuggamegin á stórgrýti eða sem ásæta á hrossaþara. Fjörugrös og sjávarkræðu er að finna í sama belti og sölin. Mismunandi purpuruhimnutegundir er að finna um alla fjöruna og skeggþangið vex eingöngu á klóþangi við miðbik fjörunnar.

Verkun fjöruþörunga

Þörunga má geyma árum saman ef þeir eru vel þurrkaðir. Söl og minni þörungategundir er auðvelt að þurrka innandyra í hóflegu magni, en best er að breiða þau út á lak utandyra í þurru veðri og leyfa sólina að sjá um þurrkinn. Stærri tegundir eins og t.d. þaranna er best að hengja upp á snúru í þurru veðri, enn muna þarf að taka þörunga inn yfir nóttina svo ekki falli á þá dögg.

Frekari upplýsingar

um tínslu, verkun og eldun matþörunga má finna í bókinni Sjávarmál eftir Eydísi Mary Jónsdóttur, Hinrik Carl Ellertsson, Karl Petersson og Silju Dögg Gunnarsdóttur. Þar er m.a. farið nánar út í það hvernig best er að þurrka mismunandi tegundir, ásamt öðrum geymsluaðferðum eins og t.d. pikklun og pækklun auk fjölda uppskrifta.

Vefsjá matþörunga

  • HNIT:

  • LÍKUR Á AÐ FINNA: