Rabarbari

Scroll To Rabarbari Ljósmynd Jessica Vogelsang

Rabarbari hefur verið ræktaður á Íslandi í meira en 130 ár. Þessi fjölæra planta náði gríðarlegum vinsældum á stuttum tíma og hana mátti finna næstum því við hvern einasta bæ og hús á landinu. Rabarbari á ættir sínar að rekja til Kína, þar er hann þekkt lækningajurt. Plantan var flutt til Evrópu líklegast á 14. öld. Í Evrópu var rabarbarinn ræktaður í klaustrum en munkarnir nýttu ræturnar til lækninga eins og Kínverjar. Rabarbari er af súruætt og telst því vera grænmeti. Íslendingar hafa fyrst og fremst nýtt leggina í eftirrétti og sultugerð en einnig örlítið í síróp og til víngerðar.

Margir eiga bernskuminningar um að hafa komist naumlega undan á harðahlaupum með reiða nágranna á hælunum. Ránsfengurinn var þá safaríkur rabarbaraleggur sem dýft var í strásykur og tugginn og soginn sem sælgæti.

Vinsældir rabarbarans hefur dalað nokkuð síðustu áratugina, kannski ekki svo skrítið þar sem framboð á ávöxtum og grænmeti hefur aukist mikið. Hann hefur hinsvegar slegið í gegn hjá þekktum kokkum um allan heim, rabarbarinn er komin í tísku. Rabarbaranum hefur verið fundið nýtt hlutverk í matargerðinni, hann er mikið notaður sem meðlæti eða krydd í allskonar rétti og er notaður til víngerðar og fleira. Rabarbarabragðið þykir eftirsóknarvert. Rabarbarinn er með því fyrsta sem stingur upp kollinum úr moldinni á vorin. Þegar hann er ungur og nýsprotinn er hann bestur. Því er um að gera að nýta hann í eitthvað fleira en í sultugerðina.