Með því að opna þá fjársjóðskistu sem sagan geymir finnum við hugmyndir, hráefni eða aðferðir sem nýtast sem innblástur í bland við það sem nútíminn býður upp á.

Látum hugkvæmni, sjálfbærni og frumleika vera okkar leiðarljós. Heiðrum náttúrunnar gjafir og gerum kröfur til þeirra sem hafa framleitt af alúð landbúnaðarvörur í yfir þúsund ár. Tölum saman, eflum samvinnu ólíkra atvinnugreina því þekkingaryfirfærsla er drifkraftur nýsköpunar og framþróunar.

Ecotrophelia Europe  er alþjóðleg keppni um nýsköpun í sjálfbærri matvælaframleiðslu. Að henni standa hérlendis; Samtök iðnaðarins, Matís, Háskóli Íslands og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Þá er Matís þátttakandi í EIT-food verkefni (Nýsköpunar- og tæknistofnun Evrópu) en tilgangur þess er að finna leiðir til nýsköpunar á heimsmælikvarða.

Sjávarklasinn hefur gegnt mikilvægu hlutverki við að fóstra frumkvöðla og efla tengslanet þeirra og viðskiptahraðlar eru meir og meir farnir að horfa til matarfrumkvöðla og nýsköpunar í matvælageiranum. Eitt af hlutverkum Landbúnaðarklasans er ennfremur að styðja við starf frumkvöðla.

Auka þarf vitund íslenskra fjárfesta um virði þess að fjárfesta í matvælaframleiðslu og matarfrumkvöðlum, en mikil áhersla hefur verið á tæknigeirann hingað til. Hreyfingin Slow Money hefur talað fyrir því að fjármagnseigendur noti minnst 1% af fjármunum sínum til að byggja upp framleiðslu matar með áherslu á heilnæmt hráefni og sjálfbæra þróun.

Hægt er m.a. að sækja um styrki til Tækniþróunarsjóðs Rannís, Framleiðnisjóðs landbúnaðar, AVS sjóðinn, Uppbyggingasjóði landshluta, Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands (frumkvöðla & fyrirtækjastyrki), Atvinnuþróunarfélaga, Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis, Arion banka (fyrirtæki/fjármögnun) og Frumkvöðlasjóð Íslandsbanka. Þá er auglýst eftir styrkumsóknum í samnorræn verkefni s.s. á vegum norræns samstarfs (norden.org)t.d.  Northern Periphery & Arctic Programs, og frá Evrópusambandinu. Evris og Inspiralia aðstoða við að sækja um og fá evrópska styrki til vöruþróunar og undirbúnings markaðssetningar erlendis. Það er líka ágætis yfirlit á vefsíðu Byggðastofnunar

Viðskiptahraðlar eins og Start up Iceland, Icelandic startup og Reykjavík start up aðstoða frumkvöðla og Sjávarklasinn, Landbúnaðarklasinn, KPMG og Deloitte bjóða upp á frumkvöðlaráðgjöf. Ýmsir fjárfestingasjóðir eru starfandi eins og t.d. Crowberry Capital, Eyrir Invest og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins. Byggðastofnun og Svanni lánatryggingasjóður kvenna bjóða upp á lán.

Gott er að fylgjast með á fésbókarsíðum Matarfrumkvöðla eða Matarauðs Íslands.Vefsíðunni icemade.is er ætlað að draga saman allt það helsta sem um er að vera í sprotaumhverfinu almennt. Þá eru góðar upplýsingar fyrir frumkvöðla á síðu Nýsköpunarmiðstöðvar og upplýsingar um stafræna miðlun hér.

Sjá nánar frétt um fjárfestingatækifæri 

EF ÞÚ ERT FRUMKVÖÐULL Á MATVÆLASVIÐI ÞÁ MÁTTU FYLLA ÚT ÞETTA FORM OG VIÐ KOMUM ÞÉR Á VEFSÍÐUNA. 

Matarfrumkvöðlar

Drifkraftar nýsköpunar og framþróunar. Tækifæri fyrir fjárfesta