Scroll To

Aldrei fleiri frumkvöðlafyrirtæki í matvælum -Efla má nýsköpun með betra rekstrarumhverfi og auknu samstarfi 

Forsvarsmenn nýsköpunarfyrirtækja í matvælaframleiðslu telja að íslenskt umhverfi sé að mörgu leyti ákjósanlegt fyrir frumkvöðlastarfsemi í matvælaframleiðslu. Matvælageirinn er mikilvæg stoð í íslensku atvinnulífi og fæðuöryggi okkar eins og heimsfaraldurinn COVID-19 hefur sýnt okkur.

Íslenski markaðurinn tekur vel á móti frumkvöðlum á matvæla- og heilsuefnasviði en hérlendis er helsta áskorunin hár framleiðslu- og flutningskostnaður og efnahagslegur óstöðugleiki vegna gengisbreytinga. Til að ná stæðrar hagkvæmni og vera nær útflutningsmarkaði er stundum allur eða hluti framleiðslunnar fluttur út. Útflutningur reynist flestum dýrt og flókið ferli. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu, Lærum af reynslunni, en í henni er leitað svara við þessum um það hvernig nýsköpunarfyrirtækjum á þessu sviði hefur vegnað og hvernig má bæta nýsköpunarumhverfi þeirra.

Góð viðskipta- og markaðsáætlun eru vegvísir fyrirtækja en það er ljóst að mikilvægi fjárfesta og styrkja í byrjun og rekstrarkunnátta skipta miklu máli. Efla þarf samstöðu nýsköpunarfyrirtækja á sviði matvæla og kom í ljós þörf á sterku stuðnings- og ráðgjafakerfi. Til dæmis við útflutning þar sem ýmis flækjustig liggja, við gerð styrkumsókna sem er mikilvægt skref til að koma hugmynd sinni á framfæri með skýrum og skilmerkilegum hætti og til að gæta hagsmuna litilla nýsköpunarfyrirtækja á matvælasviði.

Matvælaöryggi er mikilvægt í starfsemi allra sem sýsla með mat og heilsuefni en skoða þarf ástæður þess að viðmælendum þykir flóknara að stofna matvæla- eða heilsuefnafyrirtæki hérlendis en erlendis og skoða hvort auka megi undanþágur nýsköpunarfyrirtækja vegna opinberra gjalda t.d.  fyrsta rekstrarárið.

Í skýrslunni er birtur listi yfir 10 aðgerðir sem eflt geta nýsköpunarfyrirtæki í matvælum og heilsuefnum:

  1. Skoða þarf hvort auka megi undanþágur nýsköpunarfyrirtækja til að greiða opinber gjöld um einhvern tíma og þá ekki síst gjöld tengd starfsfólki.
  2. Borið hefur á þekkingarleysi í tollafgreiðslu ESB ríkja í sambandi við stöðu EES ríkja sem leitt hefur til kostnaðar og tafa. Utanríkisráðuneytið þarf að auka upplýsingagjöf til ESB um þessi mál.
  3. Auka þarf styrki til að vinna að markaðs- og sölumálum erlendis. Skoða ber hvort hvetja megi til samstarfs fyrirtækja í útflutningi með slíkum styrkjum.
  4. Áfengislöggjöfin þarfnast endurskoðunar. Horfa þarf sérstaklega til minni framleiðenda í lögunum og hvernig megi bæta stöðu þeirra m.a. í tengslum við matarferðaþjónustu.
  5. Eftirlitsiðnaðurinn er mikilvægur en það skortir gegnsæi, samstarf má auka á milli iðnaðar og eftirlitsstofana og setja skýrari vinnureglur.
  6. Skoða ber hvernig efla megi útflutning með sameiginlegu vörumerki, ráðgjafaneti um útflutning og nánari samvinnu fyrirtækja.
  7. Flutningskostnaður innanlands og á milli Íslands og annarra landa er íþyngjandi og skoða ber hvernig megi lækka hann fyrir frumkvöðlafyrirtæki.
  8. Stuðningur við matarfrumkvöðla hjá Matís hefur reynst vel en huga þarf að því að koma upp öflugra atvinnueldhúsi og annarri aðstöðu fyrir matarfrumkvöðla sem verði samnýtt af fyrirtækjum.
  9. Skoða ber hvernig hægt er að einfalda stofnun matvælafyrirtækja hérlendis en svo virðist sem það sé umtalsvert flóknara en í mörgum samkeppnislöndum.
  10. Vekja þarf áhuga fjárfesta á þátttöku í matvælafyrirtækjum og skoða hvort hægt er að beita einhverjum skattalegum aðgerðum til þess.

“Lærum ef reynslunni” er samstarfsverkefni Íslenska sjávarklasans og Matarauðs Íslands í samstarfi við Samtök iðnaðarins og Íslandsstofu.  Skýrsluna í heild má finna á vef svæðum Matarauðs Íslands og Sjávarklasans.

Skoða skýrslu Lærum af reynslunni -staða og horfur í rekstri frumkvöðlafyrirtækja á sviði matvæla og heilsuefna á Íslandi