Sjálfbærni er hinn rauði þráður framtíðarinnar

Sjálfbær þróun er skilgreind svo að þörfum samtímans sé fullnægt án þess að skerða möguleika komandi kynslóðar til að fullnægja sínum þörfum. Í því felst verndun umhverfis, notkun hreinna orkugjafa, aukin atvinnutækifæri, áhersla á menningarleg gildi og hefðir, friður, öryggi og efnahagslegur vöxtur. Sjálfbærni í matvælageiranum er skilgreind þannig að framleiðsla og neysla matvæla stuðli að heilbrigði jarðarbúa og þess umhverfis sem við lifum í, nú og til framtíðar.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna leggja meðal annars áherslu á ábyrga neyslu með minni matarsóun, sjálfbæru verklagi við opinber innkaup og upplýstu samfélagi um sjálfbæra þróun. Þar er einnig lögð áhersla á eflingu staðbundinnar menningar og framleiðslu í tengslum við ferðamenn. Þetta er í anda Slow Food-hreyfingarinnar sem berst fyrir framleiðslu og neyslu hreinna matvæla og aukinni vitund um varðveislu matarmenningar og mikilvægi smáframleiðenda.

 

Að mati sérfræðings í sjálfbærni þá getur aukin framleiðsla og neysla á staðbundnum matvælum aukið sjálfbærni í virðiskeðju matvæla. Þar með er ekki sagt að neikvæð áhrif séu sjálfkrafa minni við framleiðslu og neyslu staðbundinna matvæla. Þegar horft er til kolefnisspors matvæla liggur losunin aðallega í framleiðslunni og flutningar skipta hlutfallslega minna máli. Ákjósanlegast er að hafa flutningsleiðir sem stystar og flutningur með flugi hefur hærra kolefnisspor en sjóflutningar. Með nærsamfélagsframleiðslu verður þó til meiri tenging milli framleiðenda og neytenda sem eflir gagnkvæman skilning. Auk þess styður staðbundin framleiðsla búskap sem er smærri í sniðum og opnar tækifæri á fjölbreyttari ræktun og matartengdri ferðaþjónustu sem þjónustar bæði Íslendinga og erlenda gesti.

Ísland er 26. sjálfbærasta landið í heimi af 166 í úttekt SDSN SDG Index (Sustainable Development Solutions Network- Sustainable Development Goal) árið 2020. Samkvæmt þeim lista erum við  eftirbátar annarra Norðurlanda. Við búum við skilyrði til að rækta hágæða matvæli í sátt við sjálfbærni en við gætum nýtt þessi skilyrði í meira mæli en gert er.

 

Loftslagsbreytingar og matvælaframleiðsla

Árið 2015 fól ríkisstjórn Íslands sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að marka stefnu um eflingu lífhagkerfisins á Íslandi. Markmið þeirrar vinnu var að leita leiða til að styðja við sjálfbæra þróun og uppbyggingu atvinnulífs, þvert á landbúnað, sjávarútveg og matvælavinnslu. Þá hafa íslensk sveitarfélög mörg hver unnið langtímaáætlanir um sjálfbæra þróun innan sinna byggðalaga. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar 2017 kemur meðal annars fram að leiðarljósið í landbúnaðarstefnu stjórnvalda sé hreinn landbúnaður, þegar litið er til afurða, umhverfis og minni kolefnislosunar.

Losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði tengist aðallega framræstum jarðvegi sem notaður er til ræktunar og annarra þátta innan hvers býlis þar á meðal losun metans vegna innyflagerjunar búfjár og losun vegna áburðarnotkunar. Við það bætist losun vegna geymslu og meðhöndlunar búfjáráburðar og losun vegna eldsneytisnotkunar.

Losun frá sjávarútvegi og landbúnaði
Í skýrslu Hagfræðistofnunar um Ísland og loftslagsmál sem kom út í febrúar 2017 eru lagðar til aðgerðir til að stemma stigu við loftlagsbreytingum. Aðgerðir í sjávarútvegi miða að því að losun verði 40% minni árið 2030 miðað við 1990. Sjávarútvegur var ábyrgur fyrir um 10% af heildarútstreymi Íslands árið 2014 en var 22% árið 1990. Útstreymi frá landbúnaði minnkaði um 4% milli 1990 og 2014. Losun frá geiranum hefur þó haldist nokkuð stöðug og var 747 þúsund tonn árið 2014 sem er um 16% af heildarlosun.

Í skýrslu sem gefin var út á vegum umhverfisráðuneytisins í október 2017 kemur fram að losun koltvísýrings í landbúnaði árið 2016 sé 750 þúsund tonn. Þar segir „Losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði kemur einkum til vegna meltingar jórturdýra, búfjáráburðar, túnræktar og annarrar landnýtingar. Það er ákveðið tæknilegt þak á möguleikum til minnkunar á útblæstri svo framalega sem ekki er hreinlega dregið úr framleiðslu. Hafa verður í huga að samdráttur í framleiðslu skilar engum árangri í heildarmyndinni nema neyslan dragist saman líka. Ef neysla helst óbreytt þá er einungis verið að flytja útblástur á milli landa.“ Í skýrslunni kemur fram að bætt nýting búfjáráburðar, bætt fóðurgjöf og metangasnýting séu leiðir sem geta skilað árangri.

Matarsóun

Að vinna gegn matarsóun er ein hlið á sjálfbærri þróun

Þriðjungur þess matar sem framleiddur er fer beint í ruslið samkvæmt Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) eða um 1.3 milljarðar tonna af mat á hverju ári í heiminum. Talið er að á Íslandi verði um 5% af allri losun gróðurhúsalofttegunda vegna matarsóunar. Hér á landi er vaxandi vakning um matarsóun og bendum við á samstarfsverkefni  um matarsóun sem heldur úti frábærum vef.

 

Ódýr matur getur verið dýr blekking

Það er eðlilegt að neytendur kalli eftir lægra verði á vörum og þjónustu og stjórnvöld eftir meiri hagkvæmni  í rekstri, en hafa ber í huga að matur sem er framleiddur við sjálfbær skilyrði er dýrari en verksmiðjuframleiddur matur, nema til komi niðurgreiðsla frá því ríki sem maturinn er framleiddur í. Ódýr iðnaðarframleiddur matur getur innihaldið fylliefni sem eru ekki sérlega góð fyrir heilsuna.

Það er mikilvægt að við neytendur skiljum hvað liggur að baki matvælaverði. Sjálfbær og lífræn ræktun horfa til þátta eins og umhverfismengunar, dýravelferðar og þess að framleiða gæða hráefni sem eru næringarrík. Þar er gætt að næringarinnihaldi og ræktunar án eiturefna.

Án matar væri ekkert líf!
Aukin gæða- og umhverfisvitund neytenda kallar á meiri eftirspurn eftir heilnæmum og umhverfisvottuðum matvælum, bæði hér heima og erlendis. Breytt eftirspurn kallar á breyttar áherslur varðandi upprunamerkingar og viðurkennda gæðavottun. Á Íslandi hafa verið veittir styrkir til þeirra bænda sem lagt hafa ákveðinn hluta ræktarlands síns undir lífræna ræktun. Styrkirnir hafa hingað til verið lágir, þó bætt hafi verið úr því í nýjum búvörusamningi.

Bændur og sjómenn eru um 4% af vinnuafli þjóðarinnar. Þeir brauðfæða okkur og fyrir það eigum við að vera þakklát. Án næringar verður enginn vöxtur og þroski og án matar væri ekkert líf!

Matur og heilbrigði

Eftirspurn eftir lífrænt ræktuðum matvælum eykst jafnt og þétt og speglar áhuga um breytta lífshætti og lífsstíl. Aukin gæða- og umhverfisvitund neytenda kallar ennfremur á meiri eftirspurn eftir heilnæmum og umhverfisvottuðum matvælum, bæði hér heima og erlendis. Breytt eftirspurn kallar á breyttar áherslur varðandi þjónustu, vöruþróun og markaðssetningu.

Líkaminn þarf næringarefni til að starfa. Áhrif mataræðis á þróun lífstílssjúkdóma eins og offitu, sykursýki II og hjarta og- æðasjúkdóma er löngu staðfest. Vandamálið er svo stórt að Alþjóðheilbrigðisstofnunin og Norræna ráðherranefndin hafa nefnt lífsstílssjúkdóma sem helstu áskorun þjóða. Heilbrigðismál eru einn stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs og fer stærstur hluti þeirra í að meðhöndla lífsstílstengda sjúkdóma. Talið er að aukin vanlíðan hjá ungmennum, kvíði og þunglyndi geti tengst mataræði.

Alþjóðlega hreyfingin „One Health“ bendir á nauðsyn þess að horfa á heilbrigði út frá samspili manna, búfjár og umhverfis. Til að vel sé að forvörnum staðið þurfa stéttir, sem gæta velferðar á þessum sviðum, að vinna saman. Útbreiðsla sýklalyfjaónæmis er dæmi um alvarlega heilbrigðisógn þar sem samspil þessara þriggja þátta kemur berlega fram.

Lítil notkun sýklalyfja
Í skýrslu starfshóps um aðgerðir til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería kemur fram að dreifing sýklalyfjaónæmra baktería geti meðal annars borist með kjöti og grænmeti og milli manna og dýra (súnubakteríur). Í skýrslu Food Control Consultants sem unnin var fyrir Félag atvinnurekanda kemur hins vegar fram að ekki virðist hægt að fullyrða að innflutningur á fersku kjöti, ferskum eggjum eða vörum úr ógerilseyddri mjólk muni hafa áhrif á útbreiðslu lyfjaþolinna baktería því slíkar bakteríur berast líka með ferðamönnum.

Sem betur fer er notkun sýklalyfja í búvöruframleiðslu á Íslandi lítil. Lítil notkun sýklalyfja ásamt aðhaldsaðgerðum til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería svo sem kampfýlóbakter og salmonellu hérlendis hafa meðal annars tryggt betra öryggi neytenda gegn sýkingum þessara sýkla í fæðu hér á landi. Á undanförnum árum hefur algengi salmonellu- og kampfýlóbaktersýkinga hjá mönnum verið lægra hér á landi en í flestum nálægum löndum og var svo einnig á árinu 2016. Starfshópur á vegum heilbrigðisráðherra lagði fram tillögur árið 2017 um að efla eftirlit með sýklalyfjaónæmum bakteríum í erlendum og innlendum matvælum.

Talið er að 700.000 einstaklingar á heimsvísu deyji árlega af völdum sýklalyfjaónæmra baktería og verði ekkert að gert geti sú tala farið upp í um milljónir einstaklinga árið 2050. Norrænt samstarf um One Health hefur verið eitt af viðfangsefnum Norðurlandaráðs.

Þá er rétt að nefna að vaxtahvetjandi hormón í búfénaði er bannað á Íslandi eins og annars staðar í Evrópu og notkun áburðar og eiturefna er með minnsta móti hérlendis þó vissulega megi bæta úr.

Fæðu- og matvælaöryggi

Matarauður Íslenska kjötsúpan okkar

Framboð og aðgengi að nægri fæðu (fæðuöryggi) og öryggi matvæla til neyslu (matvælaöryggi) skipta hverja þjóð miklu máli. Markmið íslenskra stjórnvalda er að nægar birgðir séu til af heilnæmum mat og ómenguðu neysluvatni í að minnsta kosti sex mánuði hér á landi komi upp sú staða að landið einangrist.

Traust matvælaöryggi er allra hagur og upprunamerkingar og eftirlit með gæðum matvæla skiptir miklu máli. Sýklalyfjaónæmi er heilbrigðisógn sem samfélög víða um heim standa frammi fyrir og æ fleiri gera sér grein fyrir mikilvægi þess að matvæli séu laus við lyfjaleifar eða framleidd við óæskileg skilyrði. Hér má lesa um matvælaöryggi, Bændablaðið 2017 og Matís. Lögum samkvæmt er hlutverk Matís að auka verðmæti í matvælaiðnaði, bæta matvælaöryggi og efla lýðheilsu.