Mysa, öl, vín, kaffi & te

Scroll To Matarauður Brauð með tví- og taðreyktu hangikjöti. web

Allir eru með því eðli skapaðir, at bæði þurfu át ok drykkju

Á fyrstu öldum Íslandsbyggðar þegar nautgripir voru nokkuð algengir var nýmjólk sennilega drukkin meira en síðar varð. Ekki er líklegt að nýmjólk hafi verið drukkin mikið hversdags þegar komið var fram yfir miðaldir. Snemma er þess getið að Íslendingar drekki mikla mysu. Blanda úr súrri mysu og vatni var hversdagsdrykkur. Stundum var hún bragðbætt með blóðbergi, berjum eða hundasúrum. Mysa verður örlítið áfeng þegar búið er að sýra hana og ferlið skylt því þegar öl er bruggað. Í dag eru framleiddir drykkir úr mysu enda talin heilsusamleg og meira að segja er fáanlegur mysudrykkur með bláberjum. Annar drykkur sem byrjað er að framleiða hérlendis er Kombucha og minnir ferlið um margt á súra mysu en þar er notast við te sem er gerjað og bragðbætt. Sá drykkur þykir hafa góð áhrif á meltingarveginn.

Matarauður Steiktir hrútspungar, lambatungur í hlaupi og söltuð hrogn

Í Grettis sögu segir af berserkjunum Þóri þömb og Ögmundi illa: „Þeir gengu berserksgang og eirðu öngu þegar þeir reiddust.“ Þeir koma við tíunda mann að búi Þorfinns Kárssonar þegar hann er í Slysfirði. Heima fyrir er húsfreyja Þorfinns og dóttir hennar sjúk, Grettir og átta húskarlar. Berserkirnir láta ófriðlega en Grettir gefur þeim öl þangað til að þeir gerast mæddir af drykknum. Þá læsir hann þá vopnlausa í útibúri og sækir sjálfur krókaspjót og hjálm og gyrðir sig með saxi. Síðan sækir Grettir að berserkjunum og lauk þeirri viðureign með því að hann banar 10 þeirra en tveir komast undan.

Öl þarf að vera bruggað úr korni til að standa undir nafni. Einhverjir hafa notað íslenskt bygg til bjórgerðar en það er enn ekki mikið. Ræktun humals hérlendis hefur heldur ekki verið í miklum mæli.  Frá landnámi og að minnsta kosti fram á 17. öld var öl aðalveisludrykkurinn. Sagnir eru af munkum sem ölgerðarmenn og á Íslandi er þess getið að í brúðkaupinu á Flugumýri 1253 hafi Þórólfur munkur ölgerðarmaður verið veislugestur. Um miðbik 16. aldar var brugghús Í Viðey og tæki til ölgerðar voru til í Skálholti. Á þessum tíma var farið að flytja brennivín til landsins og varð þá minna um ölgerð. Jökuldælingar voru þó frægir fyrir byggölið sitt um og eftir 1900. Á Íslandi var innfluttur bjór ekki leyfður fyrr en 1989. Í dag er bjór bruggaður víða á Íslandi og í raun varð sprenging í örbrugghúsum um allt land fyrir ekki svo löngu síðan.

Mjöður er hunangsdrykkur og þótti fínni en öl og talsvert áfengari. Hann tengist gjarnan guðlegum öflum og ein var sú geit í Valhöll þar sem mjöður flóði úr spenunum einherjum vafalaust til gleði og hreysti. Bland af öli og mjöði hét milska.

Vín bruggað úr berjum, rabarbara eða fíflum var haft um hönd en þegar komið var fram á 18. öld bergðu heldri menn á innfluttum vínum. Það var svo árið 1915 sem áfengisbann var sett á og í kjölfarið jókst landabrugg. Í dag er verið að framleiða ýmsa áfenga drykki eins berjavín, gin, vodka og vískí. Verið er að þróa áfengan drykk úr mysu sem verður rjómablandaður.

Kaffi, te og súkkulaði komu hinað á 18. öld en áður hituðu húsmæður jurtablöndur og blóðbergste svíkur svo sannarlega engan. Í lækningakveri Jóns Hjaltalíns frá 1840 er kaffið talið fram sem læknislyf við eitun eða niðurgangi.