Hænsnfuglar

Scroll To landnámshæna mynd fengin af haena.is

Svo flýgur hver fugl sem hann er fjaðraður

Á Íslandi eru hænur og kalkúnar ræktaðir til manneldis. Rjúpan er villt en telst líka hænsnfugl og er árlegur jólamatur á borðum margra Íslendinga. Enn er til lítill stofn hænsna sem talinn er hafa haldist við allt frá landnámi og kallast landnámshænur. Frekar lítið mun hafa verið um hænsnarækt hinar síðari aldir en hún tók að aukast með tilkomu þéttbýlis. Vitað er að menn héldu hænur í þorpum og bæjum eftir því sem aðstæður leyfðu. Eins er ljóst að auðvelt var að flytja inn hænsni, lifandi með skipum, eða sem frjóvguð egg þegar samgöngur urðu tíðari og skjótari. Egg til neyslu voru flutt inn á síðustu öld allt til ársins 1930. Eftir það tók eggjaframleiðsla að aukast og hænsnum fjölgaði nær jafnt og þétt alla öldina.

Dag einn þegar litla gula hænan var að róta í garðinum fann hún nokkur hveitifræ. „Hver ætlar að gróðursetja þessi hveitifræ?“ sagði litla gula hænan. „Ekki ég“ sagði kisan, „Ekki ég“ sagði músin, „Ekki ég“ sagði haninn, „Ekki ég“ sagði öndin, „Ekki ég“ sagði hundurinn með langa skottið.

„Þá geri ég það“ sagði litla gula hænan. Og hún gerði það.

Litla gula hænan eftir Frank Baum

Er móðuharðindin lögðust yfir landið í lok 18. aldar varð mikill fellir í búfjárstofnum. Fór
Landnámshænan mjög illa út úr þeim náttúruhamförum. Sagt var að í sumum sveitum hafi aðeins örfáir fuglar lifað af. Síðar er farið var að flytja inn erlenda stofna til eggjaframleiðslu þá fækkaði allmikið í stofninum og það var fyrir tilstilli dr. Stefáns Aðalsteinssonar að það tókst að bjarga stofninum úr útrýmingarhætttu á 8. áratug síðustu aldar. Í dag nýtur landnámshænan vinsælda hjá áhugaræktendum og til er félag stofnað til verndar henni. Stofninn er talinn vera 3-4.000 fuglar.

Meðal einkenna íslensku Landnámshænunnar eru mannelska og forvitni. Hver fugl hefur sinn persónuleika. Þær þykja sjálfbjarga og hafa sterka móðurhvöt. Frjósemi er góð hjá báðum kynjum. Hver og ein hefur sitt sérstaka útlit og mikil litafjölbreytni ríkir.

Kjötframleiðsla af hænsnum hófst hér á sjöunda tug síðustu aldar eða um 1961 þegar fyrst voru flutt inn holdakyn að Reykjum í Mosfellssveit. Á þeim tíma var kjúklingakjöt mikill hátíðismatur hérlendis. Síðan tóku fleiri bændur upp slíka framleiðslu og sláturhús voru byggð. Neysla á kjúklingakjöti hefur síðan aukist jafnt og þétt og veitt annarri kjötframleiðslu stöðugt harðari samkeppni.

Ekki er langt síðan að kalkúnarækt hófst hér á landi og er kalkúnn víða hátíðismatur meðal Íslendinga. Fyrstu heimildir um kalkúnakjöt hér á landi tengjast bandaríska setuliðinu í heimsstyrjöldinni síðari sem flutti inn mikið af því í tengslum við þakkargerðar­hátíðina. Kaþólski presturinn á Jófríðarstöðum í Hafnarfirði var með nokkra kalkúna í eldi á fimmta áratug síðustu aldar.

Alifuglaræktar er getið í fornsögum, kunnug er gæsagæsla Grettis sterka
Ásmundarsonar og hvernig hann fór með gögl föður sína og saga er til af Hænsa-Þóri sem var óvinsæll viðskiptamaður og farandsali landbúnaðarafurða. Þá má ekki gleyma mergð sjófugla eru í björgum við landið.

Matur: bringa, leggir, file, vængir, lifur, egg (ekki hjá kalkúnum)

Eldun: soðið, steikt og grillað