Það er fýllinn sem einkennir mataræði Mýrdalsins. Fyrst er getið um fýl þar í kringum 1820 en veiði hefst líklegast um 10 árum seinna. Árið 1900 er talið að um 28 þúsund fýlsungar hafi verið veiddir eingöngu í Mýrdalnum. Fýllinn var einnig notaður sem gjaldmiðill á þeim tíma. Til eru nákvæmar lýsingar á þeim hefðum og siðum sem í heiðri voru haldnar í fýlaveiðiferðum og er þar fjársjóð að finna fyrir ferðamennsku á þessum svæðum og í Vestmannaeyjum. Í dag er hægt að bregða sér undir Eyjafjöll á veitingastaðinn Gamla fjósið í september ár hvert og gæða sér á fýl í fýlaveislunni þeirra. Aðsóknin eykst ár frá ári.
Soðinn, reyktur og saltaður
Veiðarnar hófust í 18. viku sumars, áður en fýlsunginn byrjaði að læra flugið og stóðu í eina viku. Að morgni, eftir fyrsta veiðidag, voru borin fram stór trog með nýsoðnum fýl og að lokinni veiði var haldin veisla. Á borðum var reyktur fýlsungi, rúsínugrautur með sírópi og jafnvel kindasteik.
Væri fýll hamflettur þurfti að taka innan úr honum fyrst. Að öllu þessu varð að ganga rösklega svo fýllinn skemmdist ekki og koma honum sem fyrst í salt. Úr söltum fýl var soðin súpa með gulrófum og bankabyggi og var körlum skammtaður hálfur fýll með súpunni.
Af fýlnum var allt nýtt. Egg voru tínd og etin ný, ýmist sopin eða höfð í klatta og lummur. Haus, vængir og lappir voru höggnir af en það var kallað að kvista fýlinn. Hausinn var etinn og þótti lostæti en erfitt var að hirða hann og hreinsa.
Smolt, fýlafeiti og fýlabræðingur
Fýlafylla hét paran af fýlsunganum, er hún þykk og drýpur af henni feitin. Fýlsbringa með fyllunni var mesta hnossgæti en fýllinn varð bragðmeiri þegar hann var soðinn með fyllunni. Við það settist ofan á vatnið fita, svokallað smolt, sem var fleytt ofan af og notað sem viðbit. Vetrarfýll var ekki nærri eins feitur enda var hann borðaður nýr. Hann þurfti langa suðu og var því moðsoðinn, það er, komið var upp á honum suðunni og pottinum síðan komið fyrir í kassa einangruðum með heyi.
Fýllinn var svo feitur að binda varð spotta um hálsinn á honum þegar fiðrið var reytt af til þess að ekki rynni fram úr honum lýsið. Fýlafeiti og fýlabræðingur var gott viðbit. Vængir, lappir og fiður sem hafði lýsismengast var þurrkað ásamt beinunum og notað sem eldsneyti, innyflin til áburðar. Til að fjarlægja lýsisbragð var fýllinn látinn liggja í mjólk yfir nótt. Á síðari tímum hafa menn numið á brott ákveðna kirtla og sett edik út í vatnið og hefur lýsisbragðið með öllu horfið.
Fýlafiðursængur
Fýlsunginn var mest reyttur en líka hamflettur. Fiðrið var hirt en ýmsum vandkvæðum var við það bundið, sögð var vera kotalykt af fólki sem svaf við fýlafiðursængur. Ýmsar leiðir voru farnar til að ná lýsislyktinni úr fiðrinu. Fiðrið var til dæmis látið rigna úti og síðan þurrkað, það var hitað í potti og þurrkað í blæstri, geymt árum saman í hellum og í Mýrdalnum var þróuð líftækniaðferð, fiðrið var látið maðka og maðkarnir síðan hristir úr því.