Geitur

Scroll To geitahjörð

Ekki fara í geitarhús að leita ullar

Ull vex ekki á geitum, þess vegna finna menn ekki það sem þeir leita að þegar þeir leita ullar í geitarhúsi. Íslenskar geitur hafa bæði strý og fiðu og er töluvert meira af fiðu á þeim en hjá erlendum geitum. Fínleiki þess er mikill og flokkast undir kasmírull. Gæran er kölluð staka.

Fornleifafræðilegar greiningar á dýrabeinum sýna að á 9. og 10. öld voru geitur á flestum bæjum en þeim fór fækkandi eftir það. Við upphaf 13. aldar voru geitur orðnar sjaldgæfar en á móti fjölgaði kindum. Í dag finnast geitur í öllum landshlutum nema á Vestfjörðum og er geitfjáreign afar dreifð. Geitastofninn telst vera í útrýmingarhættu en í árslok 2016 taldi stofninn 1188 vetrarfóðraðar geitur í 104 hjörðum.

Öðlist íslenski geitfjárstofninn hlutverk sem framleiðslustofn gæti það orðið sá stökkpallur sem hann þarf til að standa af sér þá ógn sem hann stendur andspænis í dag.

Íslenskar geitur

Nokkru fyrir árið 930 komu höfðingjar á íslandi sér saman um að senda mann, Úlfljót að nafni, til Noregs. Erindi hans var að kynna sér lög og venjur sem gætu orðið  að fyrirmynd í hinu nýja þjóðfélagi. Við hann eru fyrstu lögin kennd sem sögð voru upp á Alþingi – Úlfljótslög. Fóstbróðir Úlfljóts, Grímur geitskör, fór um Ísland til að afla fylgis við stofnun Alþingis sem og að finna hentugan þingstað.

Í Íslendingabók Ara fróða segir um Grím: „En svá er sagt, at Grímr geitskör væri fóstbróðir hans, sá er kannaði Ísland allt at ráði hans, áðr alþingi væri átt.

Geitur virðast í upphafi fyrst og fremst haldnar til mjólkur- og kjötframleiðslu. Fiðan, skinnið, hornin og fitan (tólg) voru líka nýtt að einhverju leyti. Skinn geitanna var til dæmis notað sem rúmfatnaður, sem ábreiða á sæti hnakka, bókband, skófatnaður og húfur.

Í dag er framleitt kjöt, mjólkurvörur, snyrtivörur og ull í afar smáum stíl. Þessar vörur seljast allar upp sem gefur vísbendingu um að verulega megi bæta vöruframboðið. Geitkjöt er magurt en próteininnihald svipar til nautakjöts. Geitasperglar eru mikið hnossgæti. Bragðgæði ákvarðast meðal annars af fóðurvali geitarinnar og aldur við slátrun. Tólgin hefur verið notuð í matargerð, til sápugerðar og sem krem. Hún hefur þótt góð fyrir þurra húð.

Minnst er á geitfé í fornbókmenntum til dæmis í Snorra-Eddu, Ljósvetningasögu og Landnámu. Í Snorra-Eddu er sagt frá því að  þrumuguðinn Þór hafi átt tvo hafra þá Tanngrisnir og Tanngnjóstur sem drógu vagninn hans. Þar segir einnig frá geitinni Heiðrúnu en úr spenum hennar rann mjöður mikill sem bardagamenn Valhallar drukku af góðri lyst. Örnefni dregin af geitum eru algeng um landið eins og til dæmis Geitafell, Geitasandur, Hafursá, Kiðafell og Kiðjaberg.

Matur úr geitakjöti, vöðvar og hryggur, lundir

Geitamjólkin gefur af sér osta

Vinnsluaðferðir kjöts: grafa, loftþurrka

Hliðarafurðir: Sápur, krem, smyrsli, stökur og afurðir „ullarinnar“