Rófur, gulrætur, blómkál ofl.

Scroll To Matarauður Íslenskt blómkál

Allt er vænt sem vel er grænt

Rófur og næpur hafa verið ræktaðar á norðlægum slóðum allt frá því á bronsöld. Í fornum handritum má finna heimildir um að forfeður okkar hafa verið með matjurtagarða allt frá upphafi byggðar á Íslandi. Ekki eru til miklar upplýsingar um hverskonar matjurtaræktun hafi átt sér stað en að öllum líkindum hafa það verið kryddjurtir og næpur. Gulrófur eru kynbættar næpur og komu ekki á sjónarsviðið fyrr en um 17. öld. Líklegt er að hert hafi að ræktun þegar kuldatímabil hófst um 1400 sem varði til um 1900.

Rófur eru ásamt kartöflum eitt algengasta rótargrænmetið sem ræktað er á Íslandi og eru þær nýtar til matargerðar. Í dag hafa fleiri tegundir rótargrænmetis bæst við, svo sem rauðrófur og gulrætur. Ennfremur ræktum við blómkál, hreðkur, grænkál, hnúðkál, hvítkál, brokkólí og fleira. Margir Íslendingar eru með sína eigin matjurtagarða og hafa skólagarðarnir átt stóran þátt í uppskeru margra barna.

Í harðærum komust konur upp á lag með að nýta hvers kyns jarðargróður. Bjarni Pálsson landlæknir segir frá því að þeir Eggert Ólafsson hafi á ferð þeirra um landið 1752–1757 hvatt íbúa til að nýta allan ætilegan jarðargróður. Líklegast er að þessi áróður hafi borið árangur, sögur fara af mikilli neyslu smára eða smæru sem tekinn er á haustin, fergður niður í hrein ílát og snæddur að vetrinum ásamt sölvum og hvannarrót en einnig seyddur í mjólk sem drukkin var að kvöldi dags.

Norrænir menn þekktu baunir á miðöldum og á 18. öld er farið að flytja töluvert af þeim til Íslands. Um var að ræða gular heilbaunir eins og við þekkjum sem meðlæti með saltkjöti en sömuleiðis var búin til baunastappa með smjöri. Ef baunir voru soðnar í léreftspoka í hangikjötssoði var rétturinn kallaður pokabaunir. Hangikjöt og pokabaunir voru þorláksmessumatur í Öræfum. Grænu baunirnar eins og við borðum gjarnan með hangikjöti í dag urðu ekki algengar fyrr en í seinna stríði.

Laukgarðar voru þekktir og er laukgarður Guðrúnar Ósvífursdóttur sennilega sá þekktasti. Klaustrin ruddu brautina fyrir nytjajurtir og ræktuðu meðal annars næpur og baunir. Í lok 17. aldar voru stórir kálgarðar á Þingeyrum og Möðruvöllum. Íslendingar tóku seint við sér í grænmetisáti þrátt fyrir að upplýsingar lægju fyrir um nytsemi og næringargildi þeirra.