Hvalur

Scroll To Mynd fengin frá: Læknirinn í eldhúsinu hrefnusteik

Hvalreki þótti mikil búbót

Frá blautu barnsbeini höfum við alist upp við það að borða hvalkjöt, enda segir frá hvalnytjum í Íslendingasögunum og alla tíð síðan. Í lögum frá 1281 má finna ákvæði um eignarrétt á hvalreka í Jónsbók, sem var lögbók þess tíma. Óvæntur hvalreki bjargaði oft heilu sveitunum frá hungurvofunni í erfiðum árum, enda er önnur merking orðsins hvalreki á íslensku, kærkomið happ eða óvæntur fengur.

Í dag er öldin önnur. Í staðinn fyrir hvalveiðar hefur risið upp nýr og blómstrandi atvinnuvegur sem er hvalaskoðun.

Það voru útlendingar sem veiddu hér hval fyrst í atvinnuskyni en heimildir geta um veruleg umsvif Baska á 17. og 18. öld. Norðmenn fengu leyfi stjórnvalda til að byggja hvalstöðvar á Íslandi seint á 19. öld og bandaríkjamenn stunduðu hér tilraunaveiðar.  Í byrjun 20. aldarinnar voru veiðarnar farnar að hafa veruleg áhrif á hvalastofna.  Árið 1913 settu Íslendingar lög til verndunar hvölum og er það er talið fyrsta hvalveiðibann sögunnar.

Árið 1928 var talið að hvalastofnar hefðu náð sér og lögin numin úr gildi. Íslendingar hófu svo hvalveiðar árið 1935. Einungis Íslendingum var leyft að veiða og alla veidda hvali varð að nýta að fullu. Eftir að hafa fylgst með ofveiði Norðmanna og áhrifum þeirra á stofnana voru veiðarnar takmarkaðar við þá stofna sem þoldu veiðar. Reynt var að stunda veiðarnar sem sjálfbæra nýtingu auðlindar. Á áttunda áratugnum hófust mótmæli gegn hvalveiðum og árið 1986 bannaði Alþjóða hvalveiðiráðið frekari veiðar. Árið 2003 hófust hvalveiðar við Íslands að nýju í vísindaskyni og 2006 í atvinnuskyni. Vegna skorts á mörkuðum hættu veiðar 2016.

„En prestur hélt ótrauður áfram og hætti ekki fyrr en hann kom hvalnum upp í vatn það sem Botnsá fellur úr og síðan er kallað Hvalvatn. Fell eitt er hjá vatninu og dregur það einnig nafn af atburði þessum og heitir Hvalfell. Þegar Rauðhöfði kom í vatnið, sprakk hann af áreynslunni við að komast þangað upp. Síðan hefur ekki orðið vart við hann, en fundist hafa hvalbein mjög stórkostleg við vatnið og þykir það vera sögu þessari til sannindamerkis.“

Illhvelið Rauðhöfði í Hvalfirði. Þjóðsögur við þjóðveginn. Myndin er hinsvegar af hvalnum Rauðhöfða sem er ein af jólavættum Reykjavíkurborgar.

 

Áður fyrr var hvalkjöt súrsað, kæst og reykt og lýsi brætt úr fitunni. Lýsið nýttist sem ljósmeti. Mæður okkar börðu hvalsteikur til með buffhamri og elduðu gjarnan í brúnni sósu með lauk og lárviðarlaufi. Með þessu borðuðum við oftast kartöflur og rabarbarasultu.

Í dag er hægt að fá hrefnukjöt en það er  eldað  með öðrum hætti en í gamla daga. Það er vinsælt á grillið og þá gildir að elda við háan hita í stuttan tíma ekki ósvipað og nautakjöt. Sumir borða það líka hrátt með sojasósu.

Myndin efst er af hrefnusteik. Fengin að láni hjá Lækninum í eldhúsinu.