Fjallagrös, hvönn, ber ofl.

Scroll To Hvönn

Stígum létt til jarðar

Í aldanna rás hafa forfeður okkar nýtt sér jurtir sem þrífast í íslenskri náttúru sér til lækninga og heilsubótar. Margar jurtir töldust hafa lækningaeiginleika og voru óspart notaðar gegn hinum ýmsum kvillum. Hér áður fyrr var farið í svokallaðar grasaferðir á fjöll. Þá var jurtum safnað í léreftspoka og þær þurrkaðar þegar heim var komið til notkunar síðar um veturinn.  Fjallagrös, hvannir og hvannarætur, skarfakál og ber hafa alltaf verið nýtt á Íslandi til matar og matargerðar

hundasúrusalat, Jessica Vogelsang

„Alkunnur er lækningamáttur jurtar þessarar gegn skyrbjúgi, en þótt sjúkdómur þessi sé mjög algengur hér, þá eru þeir samt allt of fáir, sem nota skarfakál við honum“

Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar  1772

Áhugi á náttúrulækningum og heilsuvörum hefur beint sjónum okkar að nýju að íslensku jurtunum. Í dag eru margar jurtir notaðar til að búa til bragðgóðar teblöndur, í græðandi krem, snyrtivörur og til matargerðar. Með nútímarannsóknum hefur verið sem sýna fram á lækningamátt og hollustu jurtanna. Þar fara fremstar í flokki hvönn og fjallagrös. Vitað er að Sæhvönn var einnig nefnd spekingsjurt og meistarajurt og var notuð við töfra. Best er að tína jurtirnar þegar þær eru annaðhvort við það að blómgast eða í háblóma og er því júlí besti tíminn til horfa í kringum sig eftir áhugaverðum jurtum. Æskilegt er að tína jurtirnar í þurru veðri, helst fyrripart dags þegar þær eru sem ilmríkastar.

Það er gott að geta gripið til jurta á öllum tímum ársins. Ef við getum ekki nýtt okkur þær í blóma, þurrkum við eða frystum jurtirnar til seinni notkunar. Auðvelt er að þurrka jurtir innandyra í skugga, bundnar saman í litlum knippum. Þegar tejurtir eru þurrkaðar er gott að gefa sér um eina viku til að fullþurrka þær við stofuhita og án þess að sólarljós skíni á þær. Þegar jurtirnar eru fullþurrkaðar er þær geymdar í lokuðum glerkrukkum á skuggsælum stað.

Fjallagrös eru sérstakt fyrirbæri en þau eru sambýli þörungs og svepps. Grösin vaxa um allt til fjalla þar sem gróður fyrirfinnst. Þau hafa oft komið sér vel þegar illa hefur árað hjá okkur í gegnum aldirnar. Grösin hafa verið nýtt til matargerðar með ýmsum hætti, t.d. til að drýgja mjöl, út í grauta eða til að búa til einfaldan vatnsgraut þegar ekkert annað var til í kotinu. Algengt var að búa til sæta hóstasaft úr grösunum í sveitinni í gamla daga og þóttu fjallagrös góð við kvillum í öndunarfærum og meltingarvegi. Í dag nýtum við grösin með fjölbreyttari hætti, á mörgum heimilum leynist poki af fjallagrösum sem tínd voru í skjóli fjallanna á liðnu sumri.

Á Íslandi vaxa ber um víðan völl.  Nokkrar tegundir berja eru til manneldis á Íslandi: Aðalbláber, bláber, krækiber, hrútaber, villt jarðaber, reyniber, sortuber, einiber og nú nýlega hafa fundist títuber!  Berin voru etin fersk og geymd í sýru eða skyri til bragðbætis.  Margir tína berin beint upp í sig en aðrir tína í krukkur til að taka með sér heim. Vinsælt er að sulta þau eða einfaldlega að borða þau nýtínd með rjóma og örlítið af sykri. Nokkur gróðurhús sérhæfa sig í ræktun jarðaberja, brómberja og hindberja á Íslandi.