Nautgripir

Scroll To Baulaðu nú Búkolla mín

Gott er að vera kýrskýr

Nautgriparækt á Íslandi hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Kúabúum hefur fækkað umtalsvert en aftur á móti eru þau töluvert stærri. Mikil uppbyggging og tæknivæðing hefur átt sér stað og aukning orðið í framleiðslugetu íslenskra mjólkurkúa. Þær breytingar má annars vegar rekja til fóðrunar og aðbúnaðs og hins vegar til árangurs í kynbótastarfi. Flest kúabú eru á Suðurlandi, fá á Vestfjörðum og engin á Suðurnesjum.

Nautgripir

„Jæja, nú eru þau búin að ganga nokkuð langa leið. Þá sér hann hvar kemur gríðarstór, hérna, risi á eftir þeim; tröllkarl eða risi. Og þá segir hann: „Hvað er nú til bragðs að taka, Búkolla mín?“ Þá segir Búkolla: „Taktu hár af hala mínum og þá mun koma svo mikið vatn að enginn kemst yfir það nema fuglinn fljúgandi.“

Og hann gerir þetta og það kemur vatn fyrir aftan þau, á milli þeirra og, og tröllkarlsins. En tröllkarlinn hafði strák með sér, já. Og þegar að tröllkarlinn sér það þá segir hann: „Hlauptu heim og sæktu stóra nautið hans afa þíns til þess að drekka þetta vatn.“

Um Búkollu, íslenskt ævintýri

Íslenska kúakynið er talið að uppruna hið sama og var flutt hingað við landnám og er þar af leiðandi skylt norska kúastofninum. Íslenska kúakynið er trúlega eitt af örfáum eða jafnvel eina kynið í heiminum sem haldist hefur lítt eða ekki blandað öðrum kynjum jafn lengi eða allt frá því á landnámsöld.

Framleiðsla nautakjöts hefur lengst af verið að mestu aukageta við hlið mjólkurframleiðslunnar. Á þessu urðu þó breytingar þegar bændur fóru að ala sína kálfa og framleiða ungnautakjöt. Íslenska kúakynið þótti hins vegar miður fallið til kjötframleiðslu og standa að baki erlendum kynjum að því leyti. Hingað hafa því verið flutt bæði lifandi dýr, sæði og fósturvísar  af Aberdeen Angus, Galloway og franska kyninu Limousine. Íslenskir nautgripabændur virðast þó ekki framleiða nóg í landann því talsvert er flutt inn af nautakjöti. Vel hangið nautakjöt, fitusprengt er herramannsmatur og gildir að ofsteikja ekki kjötið svo það nánast bráðni upp í þér. Sumum finnst beljukjötið betra en það fæst ekki sérmerkt beljukjöt í verslunum. Einnig er hægt að fá dýrindis kálfakjöt og er þá gott að þekkja bónda sem ræktar kálfakjöt því það fæst sjaldan í verslunum.

Íslenska kýrin sér landanum fyrir mjólk og öðrum mjólkurvörum. Skyrið er sennilega þekktasta afurðin og einn þjóðlegasti réttur sem hægt er að hugsa sér.

Matvæli: nautagúllas, nautahakk, nautatunga, nautalund, ribeye, nautavöðvi, nautatartar, nauta carpaccio, roast beef, uxahali, kálfakjöt, beljukjöt, mjólk og mjólkurafurðir

Vinnsluaðferðir og eldun: grafið, marinerað, grillað, steikt, eldað í ofni, hrátt

Hliðarafurðir: nautshúð