Landselurinn er algengasta selategundin við Ísland en hann er sjaldgæfur við Austfirði og Norðausturland. Stofninn hefur stækkað umtalsvert þar sem við nýtum hann ekki til matar eða nytja í þeim mæli sem við gerðum áður. Á Hvammstanga er Selasetur Íslands þar sem fræðast má um selina í kringum Ísland.
Selur var frá örófi alda alltaf veiddur hér og etinn. Búinn var til bræðingur úr sellýsi og tólg sem kom víða í staðinn fyrir smjör snemma á vorin. Ennfremur var þekkt að steikja kleinur og fleira brauðmeti í sellýsi. Selspik var borðað nýtt en einnig saltað og þurrkað. Á meðan lítið salt var til á íslenskum heimilum var notast við þangösku. Langt fram eftir 20. öldinni var selspik soðið í gulum baunum líkt og flesk í nágrannalöndum. Þar sem mikið var um sel var soðningur hafður í miðri viku en annars var selkjöt sunnudagsmatur. Haus, hreifar og dindill voru sviðin og soðin og látin í súr og skinnin nýtt til dæmis við skógerð.
Sæmundur fróði Sigfússon (1056 – 1133) var goðorðsmaður og prestur í Odda á Rangárvöllum. Hann er hvað frægastur meðal almennings fyrir að hafa verið í Svartaskóla og fyrir að hafa klekkt á skrattanum oftar en einu sinni. Eitt sinn hafði Sæmundur þurft að komast heim til Íslands og kallar á kölska „Syntu nú með mig til Íslands, og ef þú kemur mér þar á land án þess að væta kjóllafið mitt í sjónum, þá máttu eiga mig.“ Kölski gekk að þessu, brá sér í selslíki og fór með Sæmund á bakinu. Á leiðinni las Sæmundur í Saltaranum. Þegar þeir voru komnir í land slær Sæmundur Saltaranum í hausinn á selnum, svo hann sökk, en Sæmundur fór í kaf og synti til lands.
Myndina af selnum tók Benedikt Hálfdánarson