Sjófuglar

Scroll To Lundi. Ljósmynd Gísli Egill Hrafnsson

Að ferðast sem fuglinn fljúgjandi

Mergð sjófugla eru í björgum við landið. Björgin hafa verið nytjuð frá landnámstíð og sjófuglar hafa verið þeir fuglar sem mestar nytjar hafa verið af. Fuglarnir koma í bjargið snemma vors til að verpa. Þá er sigið í björgin og eggin tínd. Svo hverfur fuglinn úr björgunum, yfirleitt um miðjan ágúst.

Það er ógleymanleg reynsla fyrir skilningarvitin að skoða fuglabjörg. Fjöldi fuglanna er geysilegur og allt að því óraunverulegur og sífelldur ys og þys. Fuglarnir steypa sér án afláts úr berginu til hafs þar sem þeir kafa eftir fæðu úr sjónum. Svo snúa þeir til baka með gogginn fullan af sílum sem þeir fæða ungana á. Þetta endurtekur sig allan daginn og hávaðinn og skvaldrið er eins og á stærstu rokktónleikum. Tegundirnar helga sér mismunandi stað í bjarginu allt eftir því sem hentar. Hver og einn hefur sína syllu.

svartfuglsegg

Sturlunga segir frá lífi Íslendinga á Íslandi og voru frásagnir hennar ritaðar á 13. öld líkt og Íslendingasögur. Þar segir frá draumkonu Jóreiðar í Miðjumdal sem hún hafði um annan ofsamann, þ.e. Eyjólf ofsa. Draumkonan sagði við Jóreiði í Miðjumdal: „Illir þykja mér allir þeir fuglar er í sjálfs hreiður skíta“

 

Til svartfugla teljast álka, langvía, stuttnefja, lundi, haftyrfill og teista. Ekki er leyfilegt í dag að veiða allar tegundir svartfugla og þær tegundir sem má veiða er skylt að lúta reglum um veiðitímabil. Kjötið af svartfuglum er dökkt og bragðmikið og er hin besta villibráð. Oft má finna svartfugl á matseðlum íslenskra veitingahúsa. Áður fyrr var svartfuglinn kærkomið nýmeti snemmsumars eftir langan vetur. Kjötið var saltað, reykt, súrsað eða borðaður nýr. Svartfuglsegg þykja mörgum lostæti.

Um miðjan apríl fara fyrstu lundarnir að sjást við landið en í byrjun maí eru þeir nánast allir komnir ,,heim“.  Lundinn er langlífur fugl sem getur orðið áratuga gamall. Við náttúrlegar aðstæður er talið að meðalaldur lundans sé á bilinu 20 til 25 ár. Elsti lundinn sem vitað er um var 38 ára, hann var merktur í Vestmannaeyjum.

Veiðar á lundaungum eru kallaðar kofnatekja. Kofnatekja var yfirleitt í fyrstu viku í ágúst. Í héruðum um Breiðafjörð var fyrstu kofnasúpunnar beðið með eftirvæntingu.  Hún var soðin  með skarfakáli og fyrstu kartöfluuppskerunni og hennar neytt standandi úti á hlaði, skemmtilegur siður sem endurvekja mætti í héruðum Breiðafjarðar.

Um fýlinn er hægt að lesa hér.