Ísland er víðáttumikið land og bithagar miklir. Því má finna nokkuð stóra stofna villibráðar. Farfuglar eins og gæsir eru vinsæl villibráð en þær hafa verið veiddar frá alda öðli. Rjúpur, endur og sjófuglar eru veidd, sem og hreindýr. Hefð var og er enn að hafa rjúpu sem jólamat fyrir norðan. Einnig er hún borðuð víðar á landinu á jólum.
Áður fyrr voru veiðar stundaðar við hliðina á bústörfum og fengurinn jafnan gott búsílag en nú eru veiðarnar orðnar frístundaveiðar og villibráðin er borðuð sem sparimatur. Vinsælt er að efna til villibráðarveislna þar sem borðin svigna undan dýrindis réttum.