Börn í grunnskólum Vestfjarða læra að rækta matjurtir í vatnsræktarkerfi
Í snjóþungum janúar hófst tilraunaverkefnið Fræ til framtíðar í grunnskólum Vestfjarða. Kennarar og börn í 3. bekk í grunnskólum Bolungarvíkur, Ísafjarðar, Þingeyrar, Patreksfjarðar og Tálknafjarðar læra að setja saman einfalt vatnsræktarkerfi, sá fræjum, læra um matjurtir sem henta til inniræktunar og njóta uppskerunnar þegar þar að kemur.
Um er að ræða samstarfsverkefni Fræ ehf og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Verkefnið er innblásið af starfi Stephan Ritz og The Green Bronx Machine þar sem grunnskólanemendur læra um ræktunarmöguleika matjurta m.a. í þeim tilgangi að auka skilning á þessum hluta vistkerfisins í samhengi við samfélagið sem þau búa í. Unnið er með kennurum skólanna að þróun viðeigandi og spennandi kennsluefnis sem verður hýst á vef Landbúnaðarháskólans.
„Fræ til framtíðar eiga hug minn allan, börnin læra um ræktun og skarast fræðslan milli námsgreina. Þannig er stefnt að því að byggja upp sterkan hóp einstaklinga sem kunna og skilja hvernig rækta megi hollar matjurtir í sínu nánasta umhverfi. Bæði börnin og kennarar eru gríðarlega áhugasöm. Svo hafa margir foreldrarnir haft samband og gleðjast með,“ segir Gunnar Ólafsson hjá frumkvöðlasetrinu Djúpið í Bolungarvík, en hann stýrir verkefninu.
Verkefnið er styrkt af Matarauði Íslands sem heyrir undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Kennsluefni og hugmyndaréttur að inniræktunarkerfinu verður aðgengilegt öllum grunnskólum eftir að tilraunatímabili lýkur í lok árs 2020. Annað skylt verkefni er „Krakkar kokka“ sem var tilraunaverkefni Matís í grunnskólum Skagafjarðar. Áhersla er lögð á skemmtimennt um matarhefðir, nærumhverfisneyslu og sjálfbærni fyrir grunn- og leikskóla.