Oj er fiskur í matinn, eða hvað?
Fara þarf í átak til að auka fiskneyslu Íslendinga, sér í lagi yngri kynslóðarinnar enda einn hollasti skyndibiti sem völ er á. Ísland er fiskveiðiþjóð sem byggir á sjálfbæru fiskveiðikerfi og kolefnisspor fisks er lágt í samanburði við aðra próteingjafa.
Í könnun sem Gallup framkvæmdi fyrir Matarauð í september 2019 (úrtak 1612 manns, fjöldi svarenda 872) kom í ljós að Íslendingar borða fisk að meðaltali 1,8 sinnum í viku en 16.9% borða aldrei eða sjaldan fisk. Eldri kynslóðin borðar meiri fisk en sú yngri og hvítur fiskur verður alla jafna fyrir valinu. Þeir sem hinsvegar borða sjaldan fisk, velja frekar bleikan en hvítan.
Ástæður þess að svarendur borða ekki oftar fisk eru af ýmsum toga en flestir nefndu að þeim eða fjölskyldumeðlimum þættu fiskur ekki góður (28,4%). Svo virðist sem barnafjölskyldur og yngri kynslóðin hafi minna dálæti á fiski. Um 14% borðuðu ekki fisk vegna sérstaks mataræðis (grænmetisætur/vegan) og 6% vegna ofnæmis eða óþols. Tæplega 13% nefndu vankunnáttu við að elda fisk, hann væri of dýr (12,7%), yfir 6% sögðu að erfitt væri að nálgast fisk og rúmlega 5% hreinlega gleymdu fiski sem valmöguleika í innkaupaferðinni.
Að auðvelda aðgengi að ferskum fiski, jafnvel í sjávarplássum!
Reykjavík og nágrenni er nokkuð rík af fiskbúðum og í flestum stórmörkuðum er hægt að kaupa innpakkaðan ferskan og frosinn fisk. Það skýtur hins vegar skökku við að í sjávarplássum eiga sumir neytendur og veitingahúsaeigendur oft erfitt aðgengi að ferskum fiski. Dæmi eru um að veitingastaðir úti á landi fái sendan fisk frá fiskheildsölum í Reykjavík.
Á þeim stöðum þar sem er engin fiskbúð eða lítið úrval til af fiski í nærverslun, má skoða aðrar leiðir. Erlendis má t.d. finna sjálfsala (vending machine) með ferskum fiski og áTálknafirði var árið 2018 sett upp sjálfsafgreiðsla á fiski sem er opin allan sólarhringinn, Fisherman er með netverslun á fiski og sendir hvert á land sem er í neytendapakkningum. Þá hafa nokkrir viðrað hugmyndir um sölu fisks beint úr báti t.d. í anda Kaisal verkefnisins í Noregi og Wild food í Grænlandi og á Skagaströnd hefur hugmyndin beint frá báti verið að gerjast. Matís lagði fram tillögur um stofnun smásölu-fiskmarkaða á Íslandi árið 2008 sem er vert að endurskoða. Að auki mætti skoða möguleika á því að fiskvinnslur í sjávarplássum hefðu litla söluaðstöðu fyrir nærsamfélagsneyslu.
Fiskur er hollur og inniheldur mikilvægar fitusýrur, vítamín og bætiefni
Í skýrslu Matís um næringargildi sjávarafurða kemur fram að fiskur er góður próteingjafi og leggur til mikilvæg bætiefni eins og selen og joð.
Feitur fiskur gefur langar ómega‐3 fitusýrur og D‐vítamín en önnur matvæli innihalda lítið af þessum efnum. Á vef Embættis landlæknis kemur fram að D-vítamín er í fáum fæðutegundum en mest í lýsi, feitum fiski, s.s. síld, laxi, silungi, sardínum og lúðu, og í eggjarauðu. D-vítamíni er bætt m.a. í Fjörmjólk, Stoðmjólk, D-vítamínbætta léttmjólk, sumar tegundir af jurtaolíum og smjörlíki. Það er í raun óskiljanlegt að Íslendingar hafa ekki þróað þjóðarrétti með síld í kjölfar síldarævintýrisins 1867-1968. Við erum enn að veiða síld þó í miklu minna magni sé, þannig að það er hægt að prófa sig áfram með síldarrétti.
Magur fiskur, mjólk og mjólkurvörur eru mikilvægustu joðgjafar fæðunnar. Nýverið vakti Embætti landlæknis athygli á því að farið væri að bera á joðskorti meðal barnshafandi kvenna en nægjanlegt joð á meðgöngu er mikilvægt fyrir fósturþroska og þroska barnsins eftir fæðingu þess.
Fiskur er með lágt kolefnisspor
Á vef EFLU sem ber heitið Matarspor kemur í ljós að fiskur bæði veiddur í sjó og úr eldi ber lágt kolefnisspor miðað við aðra próteingjafa. Þetta ætti að falla vel að hugsjónum þeirra sem láta sig umhverfissjónarmið varða.
Hvernig aukum við dálæti á ferskum fiski?
Eins og áður segir er fiskur einn hollasti skyndibiti sem völ er á. Miðað við niðurstöður könnunarinnar virðumst við mörg þó hreinlega gleyma fiski þegar við erum að kaupa í matinn. Kannski er það vegna þess að fiskbúðir eru ekki alveg í leiðinni eða fiski er ekki stillt eins áberandi upp í verslunum?
Það tekur örskamma stund að elda hann, en kúnstin er að ofelda ekki fiskinn. Eins og við aðra eldamennsku getur fiskréttur verið einfaldur eða flókinn, allt eftir getu- og áhugastigi.Við þurfum að fá matreiðslumenn í lið með okkur sem kenna okkur að búa til fiskrétti sem hæfa hverjum aldurshópi. Börn og foreldrar gætu með aðstoð matreiðslufólks spreytt sig á að búa til fiskrétti sem falla vel að bragðlaukunum. Samvinna við næringarfræðinga væri líka áhugavert til að reikna út næringargildi mismunandi fiskmáltíða.