Scroll To

Skemmtilegar laufabrauðshefðir á Dalvík

Dalvíkingurinn Arna Gerður Hafsteinsdóttir viðheldur hefð fjölskyldunnar sem haldist hefur í rúm 70 ár og málar listaverk á nokkrar laufabrauðskökur áður en þær eru steiktar. Föðurafi Örnu byrjaði á þessari hefð í kringum 1945 og notaði þá eingöngu súpuliti til að föndra laufabrauðslistaverkin. Hefðin kemur frá bræðrunum í Miðkoti segir Arna Gerður í samtali við visir.is

„Fólk verður voðalega hissa þegar það sér þetta og hváir: Málið þið á kökur? Og borðið þetta svo?“ segir Arna og hlær, en rétt er að taka fram að þær kökur sem málað er á eru ekki borðaðar heldur eingöngu notaðar sem skraut. Eins og fyrr segir notaði afi Örnu súpuliti til að mála á kökurnar hér áður fyrr, en Arna hefur gert ýmsar tilraunir með liti í gegnum tíðina.

„Síðar meir komu matarlitir til sögunnar og það er vel hægt að nota þá líka. Þá færðist meiri litagleði í þetta. Síðan byrjaði ég að prufa mig áfram, til dæmis með nýja tússliti sem virkaði vel en þá varð miklu þægilegra að gera flottar kökur. Svo fór ég að nota akrýlmálningu og nota enn. Einu sinni prófaði ég vatnsliti en þeir hentuðu ekki heldur runnu dálítið mikið út þegar kökurnar voru steiktar,“ segir Arna. Í dag steikir Arna á milli þrjú og fjögur hundruð kökur með stórfjölskyldu sinni. Af þeim eru allt frá þremur og upp í átta málaðar. (Mynd: visir.is)