Grænsprettur í snjallhýsum færa út kvíarnar
Spretta ehf. var stofnað árið 2015 af sprotafyrirtækinu Pop People sem er í eigu Soffíu Steingrímsdóttur og rekur snjallbýli þar sem ræktaðar eru grænsprettur. Stefán Karl Stefánsson, leikari, er framkvæmdastjóri fyrirtækisins og hefur yfirumsjón með ræktun og uppsetningu.
„Áhugi minn á ræktun og sprettum sérstaklega tvinnaðist fullkomlega saman við viðskiptahugmyndir Soffíu og því tók ég að mér framkvæmdastjórn. Þetta hefur ekki bara verið frábært og skemmtilegt verkefni heldur hefur það gefið mér mikið, bæði andlega og líkamlega,“ útskýrir Stefán Karl.
Spennandi tímar framundan
Viðskiptavinir fyrirtækisins eru veitingahús og veisluþjónustur sem fá hverju sinni ferskar og ræktaðar vörur í hendur sem framleiddar eru hérlendis.
„Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Hafnarfirði og stefnum við á að svo verði áfram gefist okkur kostur á að byggja upp fyrirtækið samhliða hugmyndum okkar við hafnarsvæðið í bænum eins og við höfum óskað eftir við bæjaryfirvöld. Allar okkar vörur eru ræktaðar í þar til gerðum gámum sem ég hef sérsmíðað sjálfur og við erum að vinna okkur í átt að meiri framtíðarhugmyndum eins og að fara rækta kálhausa í vatnsrennum, um þúsund stykki á viku í hverjum gámi, sem hefur ekki verið gert áður svo við vitum hér á landi eða annarsstaðar í heiminum,“ útskýrir Stefán Karl og segir jafnframt:
„Við vitum að samkeppnisaðilar okkar úti í heimi hafa ekki náð að rækta svona mikið í sínum gámum en við erum að nýta rýmið okkar mun betur svo það er nýjung í því. Einnig erum við að reyna að koma á samstarfi milli okkar og Marel sem er fyrirtæki í fremsta flokki í tækniþróun svo það eru spennandi tímar framundan, bæði hvað varðar hönnun á gróðurhúsum í gámum og afurðaúrvali fyrir veitingageirann. Framtíðin er björt, lífið er núna og við lifum fyrir hvern dag eins og plönturnar sem vaxa hjá okkur.“