Safaríkar og ferskar spírur
„Samkvæmt rannsóknum inniheldur spírað fæði lífvirk jurtaefni sem leysast auðveldlega úr læðingi við meltingu þeirra og hafa hæfileika til að endurnýja og vernda frumur líkamans. Þá eru þær ríkar af andoxunarefnum sem hlutleysa sindurefni, en þau eru skaðleg fyrir frumur líkamans og flýta fyrir hrörnun. Þá er fæðið mjög auðmelt og ensímríkt sem auðveldar upptöku næringarefnanna út í blóðið. Spírur eru jafnframt auðugar af trefjum sem næra góðu þarmaflóruna. Neysla á spírum er í raun frábær leið til að neyta meira af jurtaefnum sem líkaminn okkar þarfnast því við þurfum í raun einungis að neyta lítils magns af spírum til að fá mikið af jurtaefnum í líkamann,“ segir stofnandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins Ecospíru, Katrín H. Árnadóttir, viðskipta- og umhverfisfræðingur.
Sparar orkubirgðir líkamans
Fyrirtæki Katrínar er staðsett í iðnaðarhúsnæði í Hafnarfirði og hefur lífræna vottun frá vottunarfyrirtækinu Tún og fullt starfsleyfi til matvælaframleiðslu þar sem framleitt er heilsufæði byggt á spíruðum fræjum, baunum og korni. Ecospíra hefur frá upphafi flokkað allan úrgang í lífrænan úrgang, pappír og plast og er mjög lítill úrgangur frá fyrirtækinu sem ekki er endurnýttur.
„Það sem einkum greinir spírur frá öðrum matvælum er gnótt ensíma sem er í spírum. Í stað þess að nota orku líkamans og eigin ensímforða við að brjóta niður fæðuna brýtur ensím spírunnar næringarefnin niður í það form sem líkaminn getur nýtt sér og skilar út í blóðið í gegnum slímhúð meltingarfæranna. Á þennan hátt sparar spírað fæði orkubirgðir líkamans. Um leið og það gefur líkamanum hágæða næringu og orku eykur það möguleika líkamans á endurnýjun og heldur líkamanum ungum og orkumiklum,“ segir Katrín og bætir við:
„Framleiðslan fer annars vegar fram í sérstökum spíruvélum þar sem framleiddar eru um 8-10 mismunandi tegundir af lífrænum spírum í hverri viku og hins vegar í hillukerfi þar sem framleiddar eru margar tegundir af smájurtum (e. Microgreens) fyrir veitingahús. Við spíruframleiðsluna er eingöngu notað sírennandi vatn og ljós. Framleiðslan er í gangi allan ársins hring og eru spírur og smájurtir frá Ecospíru nú í boði í flestum smásöluverslunum, í mötuneytum og veitingahúsum á Íslandi í dag.“