Að brúa bilið
Freyja Þorvaldar bóndi á Grímarsstöðum í Borgarfirði skrifar hugleiðingar um landbúnað „Ég vil hvetja neytendur til að horfa til upprunans, þegar Ísland byggðist að stórum hluta á landbúnaði, og leita eftir tengingu. Að sama skapi þurfa bændur að teygja sig lengra í átt að neytendum og hlusta vandlega eftir því hverjar kröfur þeirra eru“.
Landbúnaður hefur fylgt íslensku þjóðinni frá örófi alda. Allt frá því að menn námu hér land hafa Íslendingar stundað landbúnað við harðbýlar aðstæður. Landbúnaður var lengi vel ein stærsta atvinnugrein þjóðarinnar. Síðan þá hefur margt breyst og með aukinni tækni hafa vinnuaðstæður og aðferðir í landbúnaði breyst mikið. Landbúnaður hefur engu að síður verið samofinn íslenskri menningu frá upphafi. Núna blasir við að tengslin á milli landabúnaðar og almennings hafa dofnað, fyrir því eru margvíslegar ástæður.
Stærsta áskorunin sem íslenskur landbúnaður stendur frammi fyrir er að ná betri áheyrn neytenda. Að stytta bilið á milli bónda og neytenda og segja betur frá því sem liggur á bak við þær gæðavörur sem íslenskir bændur framleiða.
Eftir því sem þétting byggðar hefur aukist og fleiri flutt úr sveitum landsins í þéttbýlið, er það sífellt stækkandi hópur sem hefur enga tengingu við sveitirnar og landbúnaðinn. Margt fólk þekkir engan sem hefur það að atvinnu sinni að yrkja landið. Þessi staðreynd er ein ástæða þess að ákveðið rof hefur myndast á milli bænda og neytenda
Þetta er þó alls ekki algilt. Til er hópur neytenda sem hefur sóst eftir persónulegri viðskiptum við bændur og er jafnvel tilbúinn að greiða hærra verð fyrir slíka vöru. Við þessu hafa bændur brugðist og sú jákvæða þróun átt sér stað að þeim sem stunda heimavinnslu og beina sölu á afurðum hefur fjölgað jafnt og þétt. Þar á sér stað margkonar nýsköpun og tilraunastarfsemi. Margar nýstárlegar afurðir hafa litið dagsins ljós í bland við hefðbundnar og gamalgrónar afurðir og vinnsluaðferðir. Í þessari starfsemi býr gríðarlegur menningararfur bæði uppskriftir og nýting á hráefni. Ýmsum verkefnum hefur verið ýtt úr vör til að stuðla að þessari þróun og hefur tekist til með miklum ágætum. Með beinum viðskiptum sem þessum á sér stað samtal á milli bænda og neytanda. Þetta samtal er nauðsynlegt svo að bændur geti enn og betur komið til móts við þarfir neytenda en að sama skapi gefur það neytandanum innsýn inn í þá sögu sem liggur að baki framleiðslunni. Ég er þeirrar skoðunar að þessi tenging geri það að verkum að neytendur beri meiri virðingu fyrir þeim vörum sem þeir versla. Þeir átta sig betur á allri þeirri vinnu og alúð sem er lögð í framleiðsluna. Að sama skapi hafa bændur meiri innsýn í þarfir og viðhorf neytenda. Með því hugarfari og aukinni virðingu fyrir matvælum almennt erum við mun betur í stakk búin til að takast á við matarsóun sem stórt vandamál í heiminum. Það er samfélagslegt verkefni sem við þurfum öll að taka þátt í.
Það er mikil áskorun að ná til þeirra neytenda sem ekki eru mótækilegir fyrir þeim málflutningi sem forysta bændasamfélagsins hefur haft í frammi. Hávær málflutningur um hættur þess að velja ekki aðeins íslenskar vörur. Það er vísbending um að tímabært sé að prófa nýja nálgun til að vekja athygli á málaflokknum og koma í veg fyrir áframhaldandi rof á milli bænda og þessa hóps neytenda. Það á auðvitað við á báða bóga. Það er afar mikilvægt að bændur hlusti vandlega eftir því hverju neytendur kalla eftir og bregðist við því ört breytilega neyslumynstri sem við þekkjum í nútímasamfélagi. Það er þó vert að hafa í huga að viðbragðstími landbúnaðarins er í lengra lagi þegar kemur að því að auka í eða draga úr framleiðslu, það tekur tíma að ala nýja gripi eða fækka þeim. Burtséð frá því getur vöruþróun og hugmyndavinna verið í stöðugri vinnslu.
Verkefnið er stórt og ærið. Ég vil hvetja neytendur til að horfa til upprunans, þegar Ísland byggðist að stórum hluta á landbúnaði, og leita eftir tengingu. Að sama skapi þurfa bændur að teygja sig lengra í átt að neytendum og hlusta vandlega eftir því hverjar kröfur þeirra eru.
Minnkum bilið og upphefjum þann menningararf sem býr í íslenskum landbúnaði, horfum óhrædd til framtíðar og tökum breytingum fagnandi.
Freyja Þorvaldar bóndi á Grímarsstöðum í Borgarfirði, [email protected]