Scroll To Thomas Snellman í Höru. Málþing Matarauður og Bændasamtökin

Að gera sér mat úr Facebook

Finnski bóndinn og frumkvöðullinn Thomas Snellman hélt erindi í Hörpu á vegum Matarauðs Íslands og Bændasamtakanna sunnudaginn 4. mars 2018 fyrir framleiðendur, veitingamenn, neytendur og aðra áhugasama aðila um milliliðalaus viðskipti með svæðisbundin matvæli. Til samráðs voru Klúbbur matreiðslumeistara, Neytendasamtökin, Eirný í Búrinu og samtökin Beint frá býli.

Linkar á upptöku málþings 

Thomas Snellman og REKO hringirnir

Thomas er brautryðjandi í Finnlandi í að koma á milliliðalausum viðskiptum milli bænda/smáframleiðenda og neytenda í gegnum svokallaða REKO-hringi sem eru svæðisbundnir Facebook-hópar víðs vegar um Finnland. REKO er finnsk skammstöfun, EKO = Ekologiskt og REK = Rejäl Konsumtion sem má þýða sem „vistfræðilegir & heiðarlegir viðskiptahættir“.

Tilgangur
Tilgangurinn með REKO er að efla nærsamfélagsneyslu og færa framleiðendur og  kaupendur nær hver öðrum, gera matarhandverki/heimavinnslu hærra undir höfði og færa smáframleiðendur ofar í virðiskeðjuna. Einn af kostunum er spornun gegn matarsóun því árlega lenda sem dæmi mörg tonn af grænmeti í 2. flokk vegna útlits- og stærðarkrafna verslana og er þarna kominn vettvangur til að selja slíkar afurðir. Stjórnendur REKO hópanna gera tillögur að afhendingarstað og tíma. Framleiðendur mæta með vörurnar og kaupendur sækja það sem þeir hafa pantað og kíkja jafnvel í kringum sig hvað aðrir eru með. Þessi samkoma tekur um klukkutíma.

Möguleiki til veltuaukningar
Í Finnlandi og víðar hafa bændur náð að auka veltuna umtalsvert með þátttöku í REKO sölusíðunum. Thomas sagði frá því að milli  2013 og 2016 hafi framleiðendur aukist úr 15 í 3.700 manns og  kaupendur úr 400 í 250.000 manns.  Veltan á þessum þremur árum fór úr 80.000 evrum, (um 10 milljónum ISK) í 30 milljónir evra (um 3.8 milljarðar ISK).

Lykillinn að þessum hraða vexti var meðal annars gríðarlegur áhugi finnskra fjölmiðla og greindi Thomas frá því að eitt árið hafi verið tekið viðtal við hann að meðaltali þriðja hvern dag. Eins hafa finnsk stjórnvöld stutt við þetta fyrirkomulag með því að aðlaga regluverkið að því.

Útbreiðsla REKO hringja og viðurkenning
Thomas hefur ferðast víða til að kynna þetta fyrirkomulag sem sífellt fleiri lönd eru að taka upp, þar með talið Ísland. Thomas hlaut norrænu EMBLU-verðlaunin í flokknum „Matarfrumkvöðull Norðurlanda 2017“, en að þeim standa sex norræn landbúnaðarsambönd með stuðningi frá Norrænu ráðherranefndinni.

Matarmarkaður á Facebook (REKO)

Að loknu erindi Thomasar fór BrynjaLaxdal, verkefnastjóri Matarauðs Íslands, yfir reynsluna hér á landi en Matarauður styrkti umsjón íslenska REKO hópsins til 3ja mánaða. Sá REKO hópur heitir „Matarmarkaður á Facebook (REKO)“ og er sá eini hér á landi enn sem komið er.

Matarmarkaður á Facebook stofna í maí 2017 í tilraunaskyni
Hópurinn var stofnaður í maí 2017 af Inga Birni Sigurðssyni frumkvöðli eftir hugarflugsfund veitingamanna, frumframleiðenda og matarfrumkvöðla sem haldinn var með stuðningi og samvinnu við Matarauð Íslands. Tilgangurinn var að sameina smáframleiðendur undir einn hatt, auka aðgengi og sýnileika og færa framleiðendur ofar í virðiskeðjuna.

Tæpir 2000 meðlimir í íslenska REKO hópnum
Eftir 10 mánaða reynslu eru nú 1926 meðlimir. Hópurinn hefur ekkert verið auglýstur nema rétt í upphafi og því ekki allir smáframleiðendur sem vita af honum.Ástæðan er m.a. sú að ákveðið var að prófa hvernig svona hópur gengi áður en fyrirkomulagið yrði auglýst innan svæða.

Seljendur eru alls 46 (22 bændur, 17 smáframleiðendur og 7 með fisk/sjávarfang) og kaupendur eru 1880 (þar af 49 veitingamenn, 3 kjötiðnaðarmenn, 6 hótel og 7 heildsalar og 1815 neytendur). Í upphafi var sent bréf á framleiðendur en um 10% þeirra vildu upphaflega vera með. Þeir sem ekki vildu vera með sögðu að þeir vildu ekki baka sér óvinsældir hjá smásölum eða birgjum, höfðu ekki tíma og einn hætti við þegar hann fékk hótun frá smásala. Nánast allir hafa verið samþykktir í hópinn, enginn klagaður og viðskiptin alfarið á ábyrgð seljanda og kaupanda og ef gæðin standast ekki væntingar verður ekki frekari sala. Salan fer fram í gegnum netið eða heimabanka og geta allir kaupendur krafist reiknings. Það fer engin sala fram við afhendingu. Ekki hefur verið haldið utan um kaupveltu hérlendis.

Matarmarkaður á Facebook (REKO) leitar eftir stjórnanda í hópi smáframleiðanda
Brynja tók saman í lokin nokkrar ábendingar sem hafa safnast yfir þetta reynslutímabil. Þar kom fram að kanna áhuga og grundvöll þess að fjölga facebook hópum. Til gamans má geta að í Finnlandi þjóna 25 facebook hringir 330.000 manns eða því sem samsvarar Íslendingum í heild. Það þarf að huga að föstum afhendingarstöðum, mögulegu frysti- eða geymsluplássi og jafnvel að nokkrir aðilar tæku sig saman og skiptust á að afhenda vörur fyrir hvern annan. Það mætti líka kanna samstarf við verslanir um afhendingar. Þá er Matarmarkaður á Facebook (Reko) að leita eftir nýjum stjórnanda síðunnar, helst í ranni framleiðanda. Best að senda línu á [email protected]

Málþing um milliliðalaus viðskipti Matarauður og Bændasamtökin

Að nota Facebook sem sölumiðil

Síðasta erindið hélt Arnar Gísli Hinriksson árangursmarkaðsfræðingur um Facebook sem sölutæki. Hann kom inn á mikilvægi þess að þekkja viðskiptavinahópinn sinn þegar farið er í markaðsaðgerðir og beina aðgerðum að þeim. Hafa í huga að „Everyone is NOT your customer“. Þetta snýst um að veiða fisk með neti og veiðistöng en ekki haglabyssu.Gæði efnisins sem er teflt fram skiptir meira máli en fjöldi birtinga. Setja þarf stefnu um hvað og hvenær á að birta efni og byggja undir samstarf framleiðanda til að ná betur eyrum neytenda.

Auðkenning og aðgreining vöru býr til virði í augum neytenda
Hann ræddi jafnframt um virði þess að auðkenna vöruna sína með vönduðu vörumerki. Þjónusta og vörur með vörumerki sem neytendur hafa trú á er hægt að selja á mun hærra verði en ella. Athygli neytenda verður að ná á fyrstu 3-9 sekúndunum. Á þeim tíma þarf að vera búið að búa til athygliskrækju. Efnismarkaðssetning gegnir lykilatriði. Innihald og saga skilaboðana greina seljendur frá hver öðrum og kaupendur þurfa að fá upplýsingar sem gefur þeim eitthvert virði fyrir viðskiptin. Kaupandi þarf að finna ávinning af því að versla beint og þar er handhægast að höfða til gæða, dýravelferðar og umhverfissjónarmiða og persónugera kaupin eins og unnt er.

Það eru velflestir Íslendingar á Facebook og þess vegna virkar hún vel sem sölumiðill. Hann benti á að gott væri að samnýta vef og samfélagsmiðla þar sem hægt er að hugsa sér vefinn sem brautarstöð en samfélagsmiðla eins og lestarkerfi.

Vinnustofa milliliðalaus viðskipti Matarauður og Bændasamtökin

Vinnustofan

Eftir erindin var haldin vinnustofa þar sem gestum gafst kostur á að leggja sitt af mörkum til þess að finna leiðir til að auðvelda viðskipti með matvörur á milli bænda, smáframleiðenda og neytenda ásamt því að spyrja Thomas spjörunum úr.

Það helsta sem kom út úr vinnustofunni um hvað þurfi að gera til að koma á milliliðalausum viðskiptum milli smáframleiðanda og neytenda/kaupenda var:

Stofna sameiginlega REKO sölusíðu smáframleiðanda fyrir hvert svæði

Efla samvinnu svæðisbundinna smáframleiðanda með áherslu á vöruþróun og gæði

Styrkja markvissa markaðssetningu innan svæða þannig að bæði kaupendur (neytendur, veitingamenn, kjötiðnaðarmenn, hótel, heildsalar) og seljendur (bændur, sjávarfang/fisksalar, smáframleiðendur) viti af og nýti sölusíðuna

Skoða regluverkið í kringum smáframleiðendur. Hérlendis kvarta smáframleiðendur yfir því meðal annars að nýja reglugerðin um lítil matvælafyrirtæki hafi breytt litlu. Þeir gagnrýna að hún miði við framleiðslu á viku í stað meðaltals á viku yfir árið og að hámarksmagn sé of lítið.