Scroll To

Áhersla á vannýtt íslensk hráefni

Ragnheiður Axel Eyjólfsdóttir og Liljar Mar Þorbjörnsson kynntu á dögunum nýja áfenga drykki á markað úr kræki- og bláberjum undir merkjum Og natura. Bláberjabjórinn Liljar og Axel krækiberjavín hafa fengið góðar viðtökur og stefna þau vinirnir á enn frekari vöruþróun undir merkjum fyrirtækisins.

„Við Liljar erum góðir vinir og hann átti einstaka uppskrift að bláberjabjór svo þannig byrjaði okkar samstarf. Ég starfa hjá Íslenskri hollustu með íslensk hráefni og hef áttað mig á að mikið af hráefni er vannýtt, þar á meðal krækiber og bláber sem við eigum mikinn lager af vegna þess að veitingastaðirnir vilja kaupa aðalbláber og hrútaber en síður þau fyrstnefndu,“ útskýrir Ragnheiður.

Gerjun við jarðhita
Ragnheiður er einn af eigendum Lady Brewery og hafði framleitt bjór og var í tilraunamennsku með gerjun. Henni langaði að prófa hvað væri hægt að framleiða úr þessum hráefnum og hvort mögulegt væri að gera íslenskt vín.

„Það eru til margar gamlar sögur af fólki að gera krækiberjavín hér fyrr á tímum. Við fengum margar ólíkar uppskriftir og tillögur svo farið var í tilraunir, sumt var gott og annað ekki. Við höfum reynt mikið við villigerjun og verið brött byrjun en hér er svo kalt meðan þeir sem við höfum horft til á Ítalíu og í Frakklandi geta gerjað í 30 stiga hita og jafnvel við meiri hita,“ segir Ragnheiður og bætir við:

„Við erum að gera tilraunir með gerjun við jarðhita. Þær tilraunir eru komnar vel á veg og framleiðum við 100 prósent náttúruvín úr alíslensku hráefni. Núna stefnum við á að gera fleiri vörur með ýmsu hæfileikaríku fólki en hugsunin með Og natura er að para saman hugmyndir, hæfileika og hráefni með áherslu á vannýtt íslensk hráefni.“

(Mynd:Hari)