Scroll To Vænn þorskur

Beint af báti

Það fer ekki á milli mála að Ísland býr við einstaka sérstöðu hvað varðar ríkulegar auðlindir til lands og sjávar. Við búum við þau skilyrði að geta framleitt gæðavörur í sátt við sjálfbæra þróun. Neytendur eru að verða kröfuharðari um aðgengi að heilnæmum mat og meiri ásókn er í rekjanleg eða svæðisbundin matvæli. Þessar kröfur endurspegla viðmið Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni samfélaga jarðar, sem og hugmyndafræði Slow food samtakanna og fleiri.

Það er fátt skemmtilegra en að upplifa sögu og menningu í gegnum matarupplifun enda spegla matarhefðir, rétt eins og tungumál og trúarbrögð, sérkenni hverrar þjóðar og eru samofin náttúru og tíðarfari. Ímynd Íslands erlendis ef spurt er um mat tengist gjarnan fiski, jú og skyri. Skyrið fæst alls staðar en að finna ferskan fisk í litlu magni, í pottinn, útilegugrillið eða sumarbústaðinn er ekki svo auðvelt þar sem engar fiskbúðir eru. Og þær eru ekki margar úti á landi. Sem betur fer eru fleiri verslanir sem bjóða upp á ferskan fisk, en yfirleitt er vöruúrvalið fábreytt og fiskurinn oftar en ekki kominn langt að, jafnvel þó verslunin sé í sjávarþorpi.

Miklum fjármunum er varið í markaðssetningu erlendis og mikil vinna lögð í að fiskurinn sé sem ferskastur frá því hann er veiddur og þar til hann endar á diski neytenda víða um heim. Í allri þeirri jákvæðu þróun aukinna afkasta og gæða í sjávarútvegi hefur eitt mikilvægt atriði gleymst.

Það er möguleiki nærsamfélagsins á að verða sér úti um ferskt fiskmeti í litlu magni, jafnvel beint af báti. Það skýtur sannarlega skökku við að í sjávarþorpunum okkar, þar sem fjöldi trillubáta liggur í höfnum og þar sem sjómennirnir sigla heim í höfn með ferskan, nýveiddan fisk af nálægum miðum, skuli neytandinn sem býr við höfnina ekki geta keypt sér fisk í soðið „Beint af báti“. Ekki eru allir svo lánsamir að þekkja til sjómanns sem gefur þeim fisk í soðið endurgjaldslaust. Ferðamenn sem heimsækja smærri hafnarstaði eiga erfitt með að skilja hvers vegna ekki er hægt að nálgast ferskt fiskmeti þegar þeir horfa á bátana sigla hlaðna í höfn og landa fiskinum. Hvar er sjálfbærnin hér, þegar neytandinn endar á að þurfa að fara út í búð og kaupa frosið fiskmeti úr frystinum.

Smábátaflotinn okkar, bátar undir 15 tonnum, telur hátt í 1200 báta sem dreifðir eru um allt land. Ef einhverjir þessara báta tæku frá smá afla, sem eftir hafnarvigtun, stæði nærsamfélaginu til boða eins og neytendum, veitingahúsum eða verslunum í grennd, þá getum við bætt aðgengi að ferskum fiski. Fiskurinn er ein hollasta og besta fæða sem hægt er að hugsa sér. Er ekki kominn tími á breytingar? Í landbúnaði er boðið upp á beint frá býli – því ekki sjávarútvegurinn með beint af báti?

 

Rakel Halldórsdóttir,  annar stofnenda Frú Laugu bændamarkaðar, stjórnarmaður SLOW FOOD Reykjavík og ráðgjafi hjá Matís.
Brynja Laxdal, verkefnastjóri Matarauðs  Íslands hjá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
Páll Gunnar Pálsson ,sérfræðingur hjá Matís.