Scroll To

Besta markaðstækifæri íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja

Dagana 11. – 13. mars næstkomandi verða tvær stærstu sýningar innan sjávarútvegs í Norður Ameríku haldnar í Boston, Seafood Expo North America og Seafood Processing North America. Íslenskir þjóðarbásar verða á sýningunum en áætla má að um 20 íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi taki þátt.

Sýnendur eru um 1.200 frá 40 löndum og gestir eru um 20.000 frá um 100 löndum. Auk sýninganna eru fjölda fyrirlestra haldnir í sýningarhöllinni.
„Önnur sýningin er fyrir tækni og þjónustu í sjávarútvegi og hin fyrir sjávarafurðir svo þetta er tvískipt. Það hefur verið íslenskur þjóðarbás í Boston í um 27 ár, reyndar með hléi í tvö ár fyrir nokkrum árum. Íslensku fyrirtækin eru bæði stór og smá sem taka þátt en sýningin er besta markaðstækifæri sem hægt er að komast í. Þar hitta fyrirtækin núverandi viðskiptavini, afla nýrra og fylgjast með því sem er að gerast í greininni. Við förum á ýmsar sýningar víða í heiminum. Í dag erum við einnig að fara á stærstu sjávarútvegssýningu í heimi sem haldin er í Brussel og einnig förum við á stóra sjávarútvegssýningu sem haldin er í Qingdao í Kína. Á þessum sýningum hafa verið íslenskir þjóðarbásar í um 30 ár,“ segir Berglind Steindórsdóttir, sýningarstjóri hjá Íslandsstofu.