Scroll To

Borðin svigna undan kræsingum í Forláksmessuboði Nönnu

Matgæðingurinn og matreiðslu- og uppskriftabókahöfundurinn Nanna Rögnvaldardóttir hefur undanfarin 20 ár haldið svokallað Forláksmessuboð fyrir vini og ættingja þann 20. desember. Þá svigna borðin undan ýmsum kræsingum en Nanna sem er ekki mikið jólabarn í sér reynir að dvelja erlendis yfir hátíðarnar. Allir eru velkomnir í Forláksmessuboðið og yfirleitt koma ættingjar og gamlir og nýir vinir, kunningjar og vinnufélagar eða á bilinu 70-80 manns.

Það ætti enginn að fara svangur heim úr boði Nönnu þar sem sortirnar hlaupa á tugum á hlaðborðinu og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Svo lýsir Nanna þeim kræsingum sem í boði voru í fyrra:
„Ég var með tvö svínslæri, annað sem ég lagði í saltpækil í tvær vikur og ofnsteikti en hitt var reykt fyrri mig uppi í Mosfellsbæ, skipt í tvennt og borið fram bæði hrátt og soðið; heimareykt skagfirskt hangilæri (hrátt), grafnar skoskar rjúpnabringur, saltaðar nautatungur, reyktar folaldatungur, kjúklingalifrarkæfu, hægeldaðan kryddjurta- og pekanhnetulax, makrílkæfu, tvær tegundir af heimalagaðri síld, saltfiskplokkfisk, sveppapaté, þrenns konar grænmetissalöt, trönuberjarauðkál, fimm eða sex tegundir af sultum og chutneyum, tvennskonar heimagert sinnep, saltristaðar möndlur, heimagert potkäse, nokkrar tegundir af ostum, caladosbleytta ávaxtaköku, gamaldags vínartertu, jóladrumb, fimm sortir af smákökum og eitthvað fleira var nú örugglega. Ætli þetta verði ekki með svipuðu sniði í ár.“

Þess ber að geta að Nanna komst í heimspressuna í fyrra vegna uppátækisins og birtist grein um Forláksmessuboðið í matar- og lífstílsmiðlinum Saveur sem sjá má hér