Scroll To

Bragðlauka- og menningarferðalag í Óbyggðasetrinu

Í Óbyggðasetrinu í Fljótsdal á Austurlandi fara hjónin Arna Björg Bjarnadóttir og Steingrímur Karlsson nýjar og spennandi leiðir við að kynna svæðisbundinn þjóðlegan mat. Nú hyggjast þau setja upp matarleikhús á staðnum á næsta ári þar sem smáframleiðendur fá tækifæri til að kynna afurðir sínar með áhrifaríkum hætti með leikara á staðnum og er von hjónanna að verkefnið verði einnig innblástur fyrir aðra landshluta að gera slíkt hið sama.

Markmið verkefnisins er að setja upp matarleikhús í Óbyggðasetrinu og kanna síðar áhuga á verkefninu í öðrum landshlutum. Um er að ræða frumlega miðlunarleið eða upplifunarferðaþjónustu við að kynna mat og matarmenningu svæðisins. Gestir eru að hluta til þátttakendur og verða teknir í bragðlauka- og menningarferðalag um ólík rými setursins. Á árinu verður leitast við að afla samstarfsaðila sem eru matvælaframleiðendur á Austurlandi, kokkar og listamenn og áætlað er að sýningar hefjist á næsta ári,“ segir Arna Björg.

Frábært markaðstorg fyrir smáframleiðendur

Arna Björg Bjarnadóttir hefur víðtæka reynslu af frumkvöðlastarfi ásamt því að vera sagnfræðingur og hafa góða þekkingu í menningu og samskiptum. Steingrímur, sem allajafna er kallaður Denni, er kvikmyndaframleiðandi og reyndur leiðsögumaður.

„Við höfum góða reynslu af menningarmiðlun í söfnum ásamt í sjónvarpi og heimildarmyndum. Við höfum einnig bæði verið leiðsögumenn, aðallega á hálendi Íslands, norðan Vatnajökuls. Við elskum íslenska náttúru, menningu og sögu,“ útskýrir Arna Björg og segir jafnframt:

„Matarleikhúsið er í raun frábært markaðstorg fyrir smáframleiðendur til að kynna afurðir sínar með áhrifaríkum hætti, það er í gegnum leikara á staðnum og í gegnum annað markaðsstarf þar sem lögð verður áhersla á efnismarkaðssetningu. Það er von okkar að Matarleikhúsið verði síðar sett upp í öðrum landsfjórðungum í samstarfi við matarframleiðendur á hverju svæði og sérstaða hvers svæðis dregin fram. Draumurinn er síðan að færa það út fyrir landsteinana.“