Scroll To

Ferskur íslenskur sumarbjór með tómatakeim

Á dögunum kynntu Knútur Rafn Ármann og kona hans Helena Hermundardóttir í Friðheimum nýjan ljósan tómatabjór sem er 4,8% að styrkleika og er með smákeim af tómatabragði. Viking Brugghús Ægisgarði framleiðir þennan nýstárlega bjór fyrir Friðheima.

„Við erum búin að leika okkur með gestunum sem hingað koma í því sem við köllum matarupplifun þannig að allir okkar gestir fá kynningu á því hvernig við Íslendingar getum ræktað og uppskorið tómata alla daga ársins á Íslandi, áður en þeir fá sér veitingar. Allar veitingar á Friðheimum eru úr tómötum og þá smakkast oft maturinn öðruvísi ef þú þekkir upprunann. Fyrst byrjuðum við með tómatsúpuna, síðan bættust við fleiri réttir eins og tómatís. Maríurnar fjórar fæddust allar úr tómötum, Bloody Mary, Virgin Mary, Healthy Mary og Happy Mary. Matarminjagripirnir okkar sem við seljum í tómatbúðinni hjá okkur, tómat-sultur, eftirréttasósur, barbeque-sósur, drykkir, súpur, chutney og fleira er allt úr tómötum. Þá kom að því í vetur að okkur langaði að taka skrefið áfram og þá kom þessi skemmtilega hugmynd að brugga tómatabjór,“ segir Knútur Ármann, eigandi og framkvæmdastjóri Friðheima en til að byrja með verður bjórinn einungis seldur á krana hjá Friðheimum en það er aldrei að vita nema hann verði síðar meir settur á flöskur og seldur í ÁTVR.