Scroll To

Fjárfestingartækifæri í matvælageiranum hér og erlendis

Úti í hinum stóra heimi er til fjöldinn allur af fjárfestingarsjóðum og tækifærum fyrir framleiðendur og frumkvöðla í matvælavinnslu til að sækja styrki til starfsemi sinnar. Hvort sem það snýr að frumframleiðendum, menntastofnunum, matvæla-, eða tæknifyrirtækjum svo fátt eitt sé nefnt, þá er hægt að verða sér úti um nægilegar fjárhæðir til að ýmist koma fyrirtæki af stað eða til að halda þróunarvinnu áfram. Slíkir sjóðir eru sérstaklega algengir og öflugir í Bandaríkjunum og Evrópu en í raun þarf ekki að líta lengra en til Norðurlandanna til að finna góðar styrktarleiðir þegar kemur að matvælaiðnaði.

Þegar horft er til Íslands í þessu sambandi má segja að við séum eftirbátar á þessu sviði hvað til dæmis landbúnað varðar þar sem enginn eiginlegur fjárfestingasjóður er hérlendis sem leggur áherslu á landbúnað. Þær fjárhæðir sem í boði eru komast aðeins í hálfkvisti við það sem víða þekkist til dæmis í nágrannalöndum okkar. Framleiðnisjóður er eini sjóðurinn sem er helgaður landbúnaði. Hlutverk sjóðsins er að veita styrki og lán til framleiðniaukningar og hagræðingar í landbúnaði en árið 2017 námu greidd framlög úr sjóðnum rúmum 120 milljónum króna. Sóknaráætlanir landshluta sem eru á vegum Samtaka sveitarfélaga á hverju svæði veita styrki sem eru opnir fyrir landbúnað eins og aðra og það sama á við um sjóði Rannís og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands en ekki er til yfirsýn yfir hversu miklum fjármunum þeir veita til matvælaframleiðenda á ári hverju. Matís er fyrst og fremst þjónustufyrirtæki í matvælavinnslu og hefur stundum veitt þróunarstarfi í landbúnaði stuðning í formi vinnu og/eða aðstöðu eða afsláttarkjara en veita ekki beina styrki.

Í gegnum engla-tengslanet (angel networking) og fjárfestingarsjóði erlendis eru ýmsar leiðir færar fyrir matvælaframleiðendur og þá sem hafa góða hugmynd til að koma henni á framfæri. Fjöldinn allur er til af margvíslegum engla-tengslanetum þar sem þátttakendur fá tilkynningu um áhugaverð fyrirtæki eða hugmyndir til að fjárfesta í og þannig er í raun allur heimurinn undir til að létta með hverju og einu verkefni. Skiptir þá litlu hvort um er að ræða hugmynd að hollari matvælum í grunnskólum í Bandaríkjunum með sjálfbærni að leiðarljósi, aukin mjólkurframleiðsla sem pakkað er í umhverfisvænar umbúðir og framleitt er í Indlandi eða tæknifyrirtæki sem nýtir sérstaka gervihnatta- og gps-tækni til að reikna út landsvæði og fylgjast með þróun þess yfir langt tímabil.

Í Noregi er Nýsköpunarsjóður Noregs (Innovasjon Norge) langstærsti styrktaraðili þegar kemur að nýsköpun og frumkvöðlahugsun í landbúnaði og dælir hann út árlega nokkrum milljörðum íslenskra króna til fyrirtækja, frumframleiðenda og frumkvöðla. Norsku Bændasamtökin hafa í fjölda ára barist fyrir því að ríkið setji á fót fjárfestingarsjóð sérstaklega fyrir landbúnað en hefur ekki náð að koma því í gegn þrátt fyrir harða baráttu. Í Danmörku er Dansk Landbrugskapital einskonar lánasjóður sem einblínir á fjárfestingarverkefni ásamt endurfjármögnun í landbúnaði. Sjóðurinn er fjármagnaður með hátt í milljarði íslenskra króna frá danska ríkinu og svipaða upphæð leggja einnig fjórir lífeyrissjóðir til, sem sagt í heildina um tvo milljarða íslenskra króna árlega. Þar að auki er hægt að sækja um styrki til nýsköpunarverkefna í nokkrum sjóðum í Danmörku.

Erla Gunnarsdóttir, bóndi og blaðamaður