Framleiða rúmlega 300 þúsund skyrdósir á viku
Nýtt vörumerki MS Ísey skyr var kynnt fyrir rúmu ári síðan með pompi og prakt þar sem innlendum og erlendum aðilum var boðið til hófs í Heiðmörk. MS á Selfoss framleiðir milli 300 og 350 þúsund dósir af Ísey skyr á viku fyrir innlendan og erlendan markað. Vinsælustu þrjár bragðtegundirnar eru vanilla, bökuð epli og bláberja/hindberja en mismunandi bragðtegundir eru í boði á mörkuðunum þar sem Ísey er selt.
Ísey skyr er alþjóðlegt vörumerki sem var unnið í samstarfi við innlenda og erlenda ráðgjafa í vörumerkjahönnun og til að hafa samræmi og heildstæða stefnu í markaðs- og vörumerkjavinnu Mjólkursamsölunnar með íslenska skyrið var vörumerkið Ísey skyr einnig tekið upp á Íslandi.
„Nafnið vísar í Ísland og er auk þess íslenskt kvenmannsnafn en íslenskar konur sáu öldum saman um að búa til skyr. Að mati MS þykir nafnið einnig hentugt vegna þess að það er stutt og einfalt og auðvelt að bera fram á mismunandi tungumálum. Í byrjun júlí 2018 var stofnað nýtt dótturfélag Mjólkursamsölunnar, Ísey útflutningur ehf. sem mun huga að öllum útflutningi,“ útskýrir Sunna Gunnars Marteinsdóttir, verkefnastjóri í upplýsinga- og fræðslumálum hjá MS.
„Ísey skyr er nú selt á Norðurlöndunum, í Færeyjum, Bretlandi, Írlandi, Möltu, Sviss, Rússlandi, Hollandi, Lúxemborg, Belgíu og Ítalíu. Í byrjun næsta árs munu svo fleiri lönd bætast í hópinn þegar sala á Ísey skyri hefst í Ástralíu, Nýja Sjálandi og Japan. Auk þess er skyr selt undir öðrum nöfnum í Noregi og Bandaríkjunum sem notar íslenska uppskrift með íslenskum skyrgerlum frá MS.“