Scroll To

Friðheimar hljóta nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar

Friðheimar í Bláskógabyggð eru handhafi nýsköpunarverðlauna Samtaka ferðaþjónustunnar árið 2017. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti Friðheimum verðlaunin við fjölmenna og hátíðlega athöfn á Grand Hótel Reykjavík fimmtudaginn 16. nóvember.

Í umsögn dómnefndar segir að Helena Hermundardóttir og Knútur Rafn Ármann eigendur Friðheima séu miklir frumkvöðlar á sínu sviði en þau hafa tvinnað saman tómataræktun, ferðaþjónustu og hestamennsku og taka árlega við vel á annað hundrað þúsund ferðamönnum. Þá segir einnig í umsókn dómnefndarinnar:

„Helena og Knútur voru fyrst til að flétta saman ferðaþjónustu og garðyrkju með áherslu á fræðslu um matvælaframleiðslu á Íslandi sem byggir á hreinni náttúru og orkugjöfum ásamt því að bjóða upp á veitingar beint frá býli. Gestir fá að skyggnast inn í líf og störf heimamanna og eru í raun að heimsækja fjölskyldu og fyrirtæki þeirra. Leitast er við að veita hverjum og einum gesti hlýjar móttökur, fræðslu og einstaka matarupplifun. Allt sem til fellur í tómataframleiðslunni er nýtt í veitingahúsinu og í afurðir sem eru seldar sem matarminjagripir og hafa slegið í gegn um allan heim. Erlendir fjölmiðlar hafa veitt Friðheimum mikla athygli og fjölmargir þeirra hafa komið í heimsókn og meðal annars tekið upp matreiðsluþætti þar.“

Samtök ferðaþjónustunnar afhenda árlega nýsköpunarverðlaun fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan SAF til nýsköpunar og vöruþróunar. Verðlaununum er ætlað að hvetja frumkvöðla landsins til dáða í ferðaþjónustu. Þetta er í fjórtánda sinn sem SAF veita nýsköpunarverðlaun samstakanna en þetta árið bárust 25 tilnefningar í samkeppninni um verðlaunin. Tilnefningar til nýsköpunarverðlaunanna í ár endurspegla mikla grósku og nýsköpun bæði í afþreyingu sem og í ýmsum nettengdum þróunarverkefnum.