Scroll To BILDINFORMATION: foto: Jonas Brunnström/ Hss Media: Thomas Snellman föder upp nötkreatur i Karby, Pedersöre.

Gerðu þér mat úr Facebook!

Viltu velja og selja svæðisbundinn mat eins og Finnar og fleiri þjóðir gera?

Finnski bóndinn og frumkvöðullinn Thomas Snellman kemur til Íslands og heldur erindi í Hörpu á vegum Matarauðs Íslands og Bændasamtakanna sunnudaginn 4. mars nk. Thomas er brautryðjandi í Finnlandi í sölu svæðisbundinna matvara í gegnum svokallaða REKO-hringi sem eru vel skipulagðir Facebook-hópar víðs vegar um Finnland. Finnskir bændur og smáframleiðendur hafa náð undraverðum árangri í sölu beint frá framleiðanda og mun Thomas segja frá því hvernig þessir aðilar hafa náð að auka veltuna í sínum rekstri með nýjum söluaðferðum á Netinu. Erindi hans heitir „The REKO story, an easy way to reach consumers directly“ og fer fram á ensku.Thomas Snellman hlaut norrænu Embluverðlaunin í fyrra fyrir REKO-hringina og hafa fleiri þjóðir tekið upp viðskiptamódelið hans

Auk Thomasar mun Brynja Laxdal, verkefnastjóri Matarauðs Íslands, fjalla stuttlega  um reynslu af sambærilegum facebook hópi hér á landi og Arnar Gísli Hinriksson markaðsfræðingur heldur stutt erindi sem ber nafnið „Gerðu þér mat úr Facebook“.

Vinnustofa – Þín skoðun skiptir máli
Eftir erindin verður vinnustofa þar sem ráðstefnugestum gefst kostur á að koma sínu sjónarmiði á framfæri . Okkur langar að leggja áherslu á hvernig efla megi tengslin milli kaupanda og seljanda, hvað skiptir kaupanda máli og hvaða leiðir eru bestar til að koma vörum til kaupanda. Vonandi náum við saman bændum, veitingamönnum, smáframleiðendum og neytendum en allir velkomnir.

Ráðstefnan, sem er öllum opin, verður haldin í Björtuloftum í Hörpu eftir hádegi sunnudaginn 4. mars. Á sama tíma er Matarmarkaður Búrsins í Hörpu.

Skráning fer fram á bondi.is en aðgangur er ókeypis.

Viðtal við Thomas birtist á bls. 24 í bændablaðinu 22.febrúar 2018

Tímasetning: sunnudaginn 4. mars, kl. 14:00-16:30

Staður: Björtuloft, efsta hæð í Hörpu