Ísland er paradís stangveiðimannsins. Af villtum laxi er gnótt á Íslandi. Landið er frægt fyrir laxveiðiárnar sínar og hingað koma erlendir veiðimenn til veiða, sumir árlega. Það voru einmitt sportveiðimenn frá Bretlandseyjum sem fyrstir kynntu Íslendinga fyrir stangveiði. Lax og silungur hafði verið nytjaður með hefðbundnum hætti allt frá landnámi. Nú eru flestar ár á Íslandi aðeins nýttar til sportveiði.
Í dag er lax- og silungseldi vaxandi framleiðsla á Íslandi. Laxfiskar á borð við bleikju, regnbogasilung og lax innihalda mikið magn af omega-3 fitusýrum sem hafa jákvæð árif á heilsu manna.
Laxveiði á Íslandi hefst 1. júní ár hvert. Það er sannkallaður hátíðisdagur. Lax er frábært hráefni sem nýtist í margskonar matargerð. Þessi feiti, glæsilegi fiskur tekur vel við steikingu og er svo góður því sem næst spriklandi upp úr vatninu en hann er viðkvæmur hvað varðar geymslu í frysti til lengri tíma og því best að matreiða hann glænýjan. Gott er að búa til súpu úr beinunum og hausnum.
Silungur er samheiti fyrir urriða og bleikju, hvort sem er staðbundin eða sjógengin afbrigði sem oftast eru kölluð sjóbirtingur og sjóbleikja. Aðgangur býla að silungavötnum og ám hefur ævinlega verið mikil búbót. Spyrji maður fullorðna Mývetninga hvað hafi verið í matinn í æsku þeirra segja þeir: Silungur og aftur silungur. Siginn, saltaður og reyktur. Reyktur við tað, sprek og fjalldrapa. Á hótelinu í Reynihlíð hefur um all langt skeið verið boðið upp á t.d. hverabrauð með reyktri Mývatnsreyð. Það er gert þótt varla hafi veiðst branda úr Mývatni síðustu árin, allur silungur kemur úr eldi frá Húsavík og nágrenni, en með því að reykja hann í sveitinni við þær aðstæður sem þar hafa tíðkast um aldir má segja að hægt sé að horfa í gegnum fingur sér.
Urriði getur bæði lifað í fersku vatni og sjó en hrygnir þó ávallt í fersku vatni. Urriði sem gengið hefur í sjó nefnist sjóbirtingur (sjóurriði, birtingur). Urriða er að finna í öllum landshlutum en er algengastur í ám um sunnan- og vestanvert landið, þar sem gætir hlýsjávar. Í Vestur-Skaftafellssýslu er hann víðast ríkjandi tegund í ám, sem er sérstætt, því í flestum ám eru bleikja eða lax ríkjandi tegundir. Bleikja býr yfir mikilli aðlögunarhæfni og getur hrygnt bæði í stöðuvötnum og straumvatni. Hún getur annars vegar lifað staðbundin í ferskvatni eða gengið árlega til sjávar yfir sumartímann.
Lax og silungur er hægt að borða hráan eins og í sushi, það er hægt að grafa flökin, reykja þau, grilla, steikja eða sjóða eða elda í ofni. Sjaldan er lax eða silungur soðinn í dag, nema helst í súpu þótt slíkt hafi verið almennt hér áður og fyrr. Laxa- og silungshrogn eru mikið lostæti og seld bæði á innanlands og utanlands markað.