Ekki verður hjá því komist að nefna íslenska hestinn. Hann, eins og sauðkindin, hefur verið okkur til halds og trausts í gegnum aldirnar. Þessi trygga og trausta skepna hefur með þrautseigju sinni og jafnaðargeði verið því sem næst í dýrlingatölu, okkar heilögu kýr. Hesturinn var okkar aðalfarartæki langt fram á 20. öldina ásamt því að vera okkar helsta stoð og stytta við hverskonar landbúnaðarstörf í sveitinni.
Þegar kristni var tekin upp á Íslandi var hrossakjötsát bannað. Hér áður fyrr var allt skárra en að leggja sér hrossakjöt til munns. Fyrr á öldum var sagt að það væri hægt að finna á lyktinni hvort fólk hefði borðað hrossakjöt. Þeir sem það gerðu voru ekki velkomnir í guðshúsum þessa lands og var því annaðhvort úthýst eða látið sitja aftast í kirkjunni, það kom síðast inn og það fór fyrst út. En margir Íslendingar borða hrossakjöt með bestu lyst. Það má finna á matseðlum fínustu veitingastaða. Hrossakjöt er oft eldað á sama hátt og nautakjöt. Japanir hafa keypt af okkur hrossakjöt og kunna betur að meta það en landinn.
Í dag stunda flestir hrossabændur nú reiðhestarækt og taka þátt í kynbótastarfi. Hestaleigur má sjá víða og á frábæra samleið með ferðaþjónustu.