Hreindýr voru flutt til landsins á 18. öld og núverandi heimkynni þeirra eru á Austurlandi. Hreindýr eru harðger og vel til þess fallin að lifa af við íslenskar aðstæður. Dýrin eru öll villt en árlega er veitt tiltekið magn stofnsins. Kjötið er afskaplega meyrt og bragðmilt og ber keim af þeim villigróðri sem dýrin éta. Það þykir eftirsóknarvert að komast á veiðarnar og hreindýrakjöt er eitt dýrasta kjöt sem finna má á Íslandi.
Áður fyrr voru veiðar stundaðar við hliðina á bústörfum og fengurinn jafnan gott búsílag en nú eru veiðarnar orðnar frístundaveiðar og villibráðin er borðuð sem sparimatur. Vinsælt er að efna til villibráðarveislna þar sem borðin svigna undan dýrindisréttum.