Scroll To Erpsstaðir

Hvert stefnir Beint frá býli?

Áhugaverð samantekt Bændablaðsins á greiningu sem unnin var á vegum Matarauðs Íslands fyrir félagasamtökin Beint frá býli. Nærframtíðin liggur í aukinni milliliðalausri verslun og netverslun matvara og í fjærframtíðinni mun matvælaframleiðsla án efa einkennast af mikilli tækniþróun þar sem búast má við að matur verði í æ meira mæli framleiddur í þrívíddarprentara eða rannsóknarstofu, en Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna telur að landbúnaðarframleiðsla verði að aukast um 60% á heimsvísu til að fæða jarðarbúa árið 2050. Í ljósi loftslagsbreytinga mun mikilvægi norðurslóða í matvælaframleiðslu verða meiri en áður.

Aukin gæða- og umhverfisvitund neytenda breytir eftirspurnarmynstri. Rekjanleiki og krafa um að sá sem selur matvæli hafi heilnæmi, aðbúnað dýra og starfsfólks og sjálfbær umhverfisáhrif að leiðarljósi verður meira áberandi. Það kallar á betri tengsl framleiðanda og neytanda, verslunar og matreiðslumanna.

Því má búast við að félagsskapur Beint frá býli muni vaxa ásmegin, en til að styrkja og efla starfsemina þarf að leiða stefnumótun sem varla er gerð í hjáverkum og sjálfboðavinnu. Það er því mikilvægt að ráðinn verði verkefnastjóri sem hafi yfirsýn og ástríðu að smíða betri brú frá framleiðanda yfir til neytenda/kaupenda og vinna að hagræðingu í markaðs- og sölustarfi.

Bændur sem sinna heimavinnslu og góðri nýtingu afurða eru hjartað í matarferðaþjónustu og eiga að leiða vöruþróun og nýsköpun í takt við neyslubreytingar íslenskra og erlendra ferðamanna, ásamt því að varðveita matarhandverk og arfleifð.

Bændur eru að verða æ stærri hluti ferðaþjónustunnar og nauðsynlegt að sveigja regluverkið þannig að styrkja megi atvinnutækifæri í kringum smáframleiðslu og gestaboð í sveit, án þess að matvælaöryggi sé stefnt í hættu. Matarauður hefur m.a. verið að skoða hvernig megi vinna að því.

Hér má finna greininguna á starfsemi Beint frá býli 2018 á vefsvæði Matarauðs

Bændablaðið 23. ágúst 2018. bls 27

Hér er pdf útgáfa af greininni sjálfri Bændabl. 23. ágúst. BFB greiningin