Scroll To Matarauður Íslands

Íslenskt lambakjöt verður fyrsta íslenska verndaða afurðaheitið

Lambakjöt er fyrsta íslenska afurðin sem fær vernd samkvæmt lögum. Vegna samnings Íslands og ESB mun vernd afurðaheitisins gilda á öllu evrópska efnahagssvæðinu. Þetta er stórfrétt og frábært skref hjá sauðfjárbændum sem mun án efa greiða fyrir markaðssetningu, ekki síst innan ESB-landa. Með þessu er íslenska lambakjötið komið með gæðastimpil og í viðurkenningunni felst virðing fyrir matarauðnum okkar og matarmenningu.

Vonandi fylgja fleiri afurðir í kjölfarið og í raun merkilegt að við höfum ekki sótt um verndun afurðaheita fyrr því lög um verndun afurðaheita tóku gildi árið  2014 . Lögin  taka til uppruna, landsvæðis eða sérstöðu vegna hefða. Markmið þeirra er að stuðla að neytendavernd, auka virði afurða og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti. Lögin gilda einnig um erlend afurðarheiti sem hlotið hafa vernd samkvæmt þessum lögum eða á grundvelli þjóðréttarsamninga. Hér er nærtækast að nefna Feta afurðaheitið sem er frjálslega notað hérlendis sem og annars staðar.

Vaxandi samkeppni í þjónustu við ferðafólk og opnari innflutningur á landbúnaðarafurðum ætti að auka áhuga íslenskra framleiðenda á því að fá einstakar framleiðsluvörur verndaðar samkvæmt lögum. Kannanir sýna að neytendur eru tilbúnir til að borga hærra verð fyrir afurðina þar sem þeir treysta gæðum hennar.

Flest þekkjum við einhver vernduð erlend afurðaheiti sem vísa í land eða upprunastað. Færri kannski átta sig á sérstöðu vegna hefða sem nýtur lögbundinnar verndar. Hægt er að kynna sér hvaða vörur njóta verndar samkvæmt Evrópusambandslögum á vefsíðu þeirra. Rúmlega 1400 eru skráðar og 200 eru í ferli. Fáein dæmi:

PDO: Protected Designation of Origin – upprunavísun. T.d. osturinn Feta frá Grikklandi, Parmigiano Reggiano frá Ítalíu,  Roquefort frá Frakklandi, Gorgonzola frá Ítalíu,  Shetland Lamb frá Bretlandi, Camembert de Normandie, Mozzarella di Bufala Campana, Prosciutto di Parma, Kalix Löjrom frá Svíþjóð,   Miel de Tenerife o.s.frv.

PGI: Protected Geographical Indication – landfræðileg vísun. T.d.  Fenalår frá Noregi, Tørrfisk fra Lofoten, Champagne frá Frakklandi, Porchetta di Ariccia frá Ítalíu, Chorizo de Cantimpalos frá Spáni, Danbo frá Danmörku, Gouda Holland o.s.frv.

TSG: Traditional Specialities Guaranteed –  sérstaða vegna hefða. T.d. Traditionally Reared Pedigree Welsh Pork frá Bretlandi, Pizza Napoletana frá Ítalíu,  Traditional Bramley Apple Pie Filling frá Bretlandi, Bacalhau de Cura Tradicional Portuguesa, Hushållsost frá Svíþjóð o.s.frv.