Scroll To

Íslenskt matarhandverk til vegs og virðingar

Matarhandverk er hluti af menningararfi þjóða og endurspeglar hefðir og samtíma nýsköpun. Með vaxandi áhuga á matarmenningu og matarferðaþjónustu hefur eftirspurn aukist eftir staðbundnum matvörum og matarminjagripum, en skilningur á matarhandverki, bæði meðal framleiðanda og neytenda, er hins vegar enn óljós. Matarauður Íslands og Samtök smáframleiðanda matvæla gerðu því með sér samning um að festa matarhandverk og matarhandverkskeppnir í sessi með það að markmiði að efla skilning á verðmæti matarhandverks og menningarlegri sérstöðu.

Aðdragandi samningsins
Matarauður styrkti fyrstu Íslandsmeistarakeppni í matarhandverki sem var haldin 23. nóvember 2019 á Hvanneyri í styrkri umsjón markaðsstofu Vesturlands og í samvinnu við Matís. Í kjölfar greiningarvinnu eftir keppnina var ákveðið að vinna þyrfti betur að markaðssetningu matarhandverks og framkvæmdarferli við matarhandsverkskeppnir og var það sameiginlegt mat þeirra sem stóðu að Íslandsmeistarakeppni í matarhandverki að fela Samtökum smáframleiðenda matvæla það verkefni, enda fellur það vel að hlutverki og markmiðum samtakanna. Áhersla er lögð á þverlæga samvinnu og hefur Landbúnaðarháskóli Íslands til að mynda þegar lýst yfir áhuga á samvinnu.

Framkvæmd
Hlutverk samtaka smáframleiðanda matvæla verður, í samráði við fagfélög og fagaðila, að skilgreina íslenskt matarhandverk, uppfæra og staðfæra keppnisreglur, bæta framkvæmdarferlið í kringum matarhandsverkskeppnir og upplýsa framleiðendur og neytendur um virði matarhandverks, menningarlegt gildi og aðgreiningu frá öðrum vörum. Gert er ráð fyrir að Íslandsmeistarakeppni í matarhandverki færist milli landshluta sé áhugi heimamanna til staðar. Hlutverk Matarauðs auk fjárstyrks er áframhaldandi samráð og stuðningur.

Þessu verkefni á að ljúka fyrir 15. nóvember 2020 því hinu tímabundna verkefni, Matarauður íslands á vegum sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, lýkur í byrjun desember.