Scroll To

Íslenskt úrvalshráefni nær út til milljóna Bandaríkjamanna

Tvíburasysturnar Hadley og Delaney frá amerísku sjónvarpsstöðinni PBS gerðu kynningarþátt á dögunum í Hörpunni sem nefnist A taste of Iceland um íslensk matvæli og nutu þar leiðsagnar Bjarna Gunnars Kristinssonar, yfirmatreiðslumeistara í Hörpunni. Á milli þess sem farið var yfir íslenskt hráefni og notkun á því voru helstu ferðamannastaðir hérlendis kynntir og úr varð því fínasta landkynning í leiðinni.

„Þær ferðast um heiminn og eru með þessa sjónvarpsþætti hjá PBS sem er hannaður fyrir krakka með fróðleik og fræðslu um hvert svæði. Sjónvarpsstöðin hefur meðal annars fengið Golden Globe-verðlaunin fyrir unnið barnaefni og í þetta sinn vildu þeir kynnast íslensku hráefni og þeim aðferðum sem við notum til að vinna með það. Þetta var mjög skemmtilegt verkefni og gekk mjög vel. Við gerðum fjóra rétti, einn með skyri, annan með silungi, sá þriðji var plokkfiskur og síðan notuðum við lambakjötið með því að gera litla lambaborgara,“ segir Bjarni Gunnar en árlega horfa um 200 milljónir Bandaríkjamanna á PBS-sjónvarpsstöðina.

Hægt er að horfa á þáttinn hér